Afkoma Haga á öðrum ársfjórðungi fjárhagstímabilsins dróst saman frá fyrra ári, en EBITDA nam 4.014 milljónum króna og hagnaður 1.723 milljónum króna. Þess ber að geta að afkoma á sama fjórðungi í fyrra var óvenju sterk í sögulegu samhengi.
Heildarhagnaður Haga á fyrstu 6 mánuðum fjárhagstímabilsins nam tæpum 2,6 milljörðum króna., sem jafngildir 2,8% af veltu en heildarhagnaður á fyrra ári var rúmir 2.7 milljarðar króna eða 3,2% af veltu. Fjárhagstímabilið sem um ræðir er 1. mars - 31. ágúst.
Vörusala fyrri árshelmings nam tæpum 91 milljarði samanborið við tæpa 87 milljarða árið áður. Söluaukning milli ára nam 4,4% en söluaukning verslana og vöruhúsa nam 6,2% og söluaukning hjá Olís nam 0,3%.
Framlegðarhlutfall nam 21,7% og hækkaði um 1,0 prósentustig frá fyrra ári. Hækkun framlegðarhlutfalls liggur bæði í dagvöru og eldsneytishluta samstæðunnar.
Launakostnaður hækkaði um 10,4% milli ára og annar rekstrarkostnaður hækkaði um 15,3%. Launa- og kostnaðarhlutfall á tímabilinu hækkar úr 13,1% í 14,1%.
EBITDA nam 7.228 milljónum króna., samanborið við 6.993 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 8,0%, samanborið við 8,1% á fyrra ári. EBITDA verslana og vöruhúsa jókst um 9,0% milli ára en EBITDA Olís dróst saman um 10,6%. Afskriftir hækka um 5,2% milli ára og fjármagnskostnaður hækkar um 21,3%.
Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 er óbreytt og gerir ráð fyrir að EBITDA verði 13.800-14.300 m.kr.
Rekstur Haga í sumar, á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins 2024/2025 var samkvæmt áætlunum félagsins. Á fjórðungnum jókst vörusala um 2,8% miðað við árið á undan. Framlegð jókst að sama skapi um 2,7% í krónum talið en framlegðarhlutfall stóð í stað og var 21,8%.
Í uppgjörinu kemur fram að skýringin á samdrætti í afkomu Haga miðað við fyrra ár liggi því annars vegar í breytingum hjá Olís og hins vegar í hækkun fjármagnsgjalda. Hjá Olís sé nauðsynlegt að horfa til samanburðar við sama fjórðung í fyrra, þegar selt magn og afkoma voru óvenju sterk, m.a. vegna hagfelldra hreyfinga í heimsmarkaðsverði olíu og stórra einskiptisverkefna.
Haft er eftir Finni Oddsyni, forstjóra Haga í tilkynningu að ágætt ferðamannasumar, nýjar rafhleðslustöðvar í samstarfi við Ísorku og vel heppnuð samvinna með Wolt og póstafhendingarþjónustum skilaði sér í aukinni þurrvöru- og veitingasölu á þjónustustöðvum Olís.
„Heilt yfir hefur undirliggjandi rekstur Olís haldið áfram að styrkjast og enn er unnið að því að efla þjónustuframboð á stöðvum. Því tengt mun fyrsta bílaþvottastöð félagsins opna í desember undir merkinu Glans. Þá er formlegt söluferli á eignarhlutum Olís og meðeigenda í ODR hafið.”
Hann nefnir einnig að efnhagsástandið hafi haft áhrif á kauphegðun viðskiptavina sem velji í síauknum mæli ódýrari valkosti.
„Heilt yfir erum við sátt með starfsemi Haga á fjórðungnum og það er ánægjulegt að afkoma helstu eininga á dagvöruhliðinni heldur áfram að styrkjast þrátt fyrir breytta kauphegðun viðskiptavina. Staða og horfur í rekstri Haga eru góðar, en rekstrareiningar félagsins standa sterkt, fjárhagsleg staða er góð, og mörg tækifæri til vaxtar á nýjum sviðum. Sem fyrr hefur félagið á að skipa frábærum hópi starfsfólks sem hefur hag neytenda að leiðarljósi, m.a. með því að leita stöðugt leiða til að auka hagkvæmni í verslun og gera hana þægilegri og skemmtilegri,” er haft eftir Finni í fréttatilkynningu.