Hampur til útflutnings

Sigurður Hólmar formaður Hampfélagsins segir landsmenn átti sig almennt ekki …
Sigurður Hólmar formaður Hampfélagsins segir landsmenn átti sig almennt ekki á margbreytileg notagildi Hamps. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Sigurður Hólmar Jóhannesson formaður Hampfélagsins segir eitt af markmiðum félagsins sé að efla fræðslu á meðal almennings og stjórnvalda með því að benda á margbreytilegt notagildi Hamps.

Að mati Sigurðar gera Íslendingar og fólk almennt sér ekki grein fyrir því að hampafurðir séu meira og minna notaðar í framleiðslu í yfir 25 þúsund vöruflokkum í alls konar iðnaði.

„Það er hægt að nota hampafurðir á svo mörgum sviðum, til að mynda í byggingarefni og í alls konar einangrun. Það kemur mörgu fólki á óvart að BMW-bílarnir sem keyra hér um götunar hafi hampeinangrun í hurðunum, bara svo eitt sé nefnt,“ segir Sigurður léttur í bragði.

Hampur til útflutnings

Aðspurður segist hann ekki vera í neinum vafa um að hér á Íslandi geti sprottið upp blómlegur iðnaður í kringum hamp.

„Við höfum rætt við aðila sem setja reglurnar á Íslandi, alþingismenn og ráðherra. Einnig hafa mörg stór fyrirtæki hér landi sýnt þessu áhuga. Til að mynda sjá sjávarútvegsfyrirtæki tækifæri í því að búa til plast úr hampi sem leysist upp í sjónum, í stað hefðbundins plasts sem tekur aldir að leysast upp í hafinu,” segir Sigurður.

Aðspurður segir hann að þrátt fyrir að ræktun iðnaðarhamps hafi verið leyfð á Íslandi frá árinu 2020 hafi stjórnvöld engu að síður ákveðið að fara ekki alla leið.

„Til dæmis banna lögin nýtingu á verðmætasta hluta plötunnar, sem er blómin. Þar af leiðandi má ekki vinna CBD-olíu úr þeim. Hins vegar hefur okkur tekist að opna þetta samtal en það er langt í land að við getum nýtt plöntuna til fullnustu,“ segir Sigurður.

Hann segir að þingsályktunartillögur hafi verið lagðar fram á undanförnum árum, sem miði að því að leyfa CBD-olíur og ýta úr vör tilraunaverkefni sem miðar að því að rækta lyfjahamp til útflutnings, sem Danir hafa gert frá árinu 2018.

„Ræktun og útflutningur á lyfjahampi er í dag orðin ein af fimm stærstu útflutningsvörum Danmerkur. Við á Íslandi erum ekki einu sinni komin í startholurnar. Að mínu mati eru gríðarleg tækifæri hér á landi að hefja útflutning og um leið skapa nýjan iðnað hér á Íslandi,“ segir Sigurður.

Hann segir að hér á landi sé eingöngu leyfilegt samkvæmt lögum að selja og nota CBD-olíur sem húðvörur.

„Hér á Íslandi má eingöngu selja CBD-olíur til útvortis notkunar. Hins vegar má ekki auglýsa olíuna sem fæðubótarefni, sem hún er í raun og veru. Það má heldur ekki upplýsa fólk um það með hvaða hætti olían gæti nýst því, í öðrum tilgangi en að bera hana á húðina,“ segir Sigurður að lokum.

Nánar er fjallað um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK