Líst vel á fyrirætlanir Play

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að sér lítist vel á fyrirætlanir Play um breytt rekstrarlíkan. Birta lífeyrissjóður er einn af stærstu hluthöfum Play.

Flugfélagið tilkynnti í síðustu viku að afkoma félagsins yrði undir væntingum og félagið hygðist efla þjónustu félagsins til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi en draga töluvert úr umsvifum tengiflugs milli Norður-Ameríku og Evrópu. Þá hefur félagið hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu.

„Þessar aðgerðir eru kynntar þannig að þær muni bæta reksturinn. Þeir sjá tækifæri í að draga úr Ameríkuflugi og einblína á ferðir til sólarlanda. Þeir meta það svo að eftirspurnin sé eftir ferðum til Suður-Evrópu, þá er eðlilegt að rekstrarlíkaninu sé breytt. Þeir telja að það sé arðbært að breyta rekstrinum með þessum hætti,“ segir Ólafur og bætir við að markaðshlutdeild á þeim leiðum sem Play ætli að einbeita sér að sé mikil.

Mörgum spurningum ósvarað

Spurður hvort hann telji að þörf sé á meira framboði til sólarlanda en nú er segir Ólafur að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi breytingarnar á rekstrinum.

„Forstjóri Play metur það svo, en við bíðum spenntir eftir nánari kynningu á því næstkomandi fimmtudag. Það er mörgum spurningum ósvarað og það er þörf á að kynna þetta betur fyrir okkur hluthöfum og við fáum þær upplýsingar á fimmtudag eins og aðrir,“ segir Ólafur.

Líta raunsæjum augum á stöðuna

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á framtíðarhorfur félagsins segir Ólafur að bæði hann og starfsmenn Birtu lífeyrissjóðs séu raunsæir og muni að sjálfsögðu bregðast strax við ef forsendur breytast.

„Við erum mjög meðvituð um það sem nefnist í fræðunum staðfestingarskekkja (e. confirmation bias) og förum með málið í samræmi við það hjá sjóðnum. Við horfum á þessa fjárfestingu til lengri tíma og horfum ekki bara á jákvæðu hliðarnar þegar við endurmetum forsendur,“ segir Ólafur.

Hann segir að forsvarsmenn Birtu hyggist líta raunsæjum augum á stöðuna.

„Við viljum ekki tala inn í markaðinn. Þetta er skráð félag og við viljum hvorki tala upp né niður þá stokka sem við eigum hlut í. Eignarhald okkar og breytingar á því endurspegla skoðun okkar. Við ætlum bara að vera raunsæ og meta stöðuna eftir því sem nýjar upplýsingar berast. Við erum spennt fyrir afkomufundinum á fimmtudaginn,“ segir Ólafur að lokum.

Viðtalið er hluti af lengra viðtali og umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og verður birt á viðskiptavef mbl.is í hlutum í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka