Sjónarhóll: Eignaflokkur á uppleið

Ljósmynd/Aðsend

Rafmyntir hafa þróast úr því að vera óskýr hugmynd yfir í að verða viðurkenndur eignaflokkur sem getur gegnt mikilvægu hlutverki í eignasöfnum um allan heim. Mikil þróun hefur átt sér stað síðan Bitcoin kom fyrst fram árið 2008. Í kjölfarið hefur komið fram fjöldinn allur af öðrum rafmyntum sem hafa aðra eiginleika en Bitcoin. Nú hefur þessi eignaflokkur náð markaðsvirði sem nemur 2.300 milljörðum dollara, og samhliða því hafa bæði almennir fjárfestar og stofnanafjárfestar sýnt aukinn áhuga á að fjárfesta í rafmyntum.

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá stærsta eignastýringarfyrirtæki heims, BlackRock, hefur Bitcoin takmarkaða fylgni við hlutabréf, skuldabréf og aðra eignaflokka, sem gerir eignina að einstöku verkfæri fyrir fjárfesta sem vilja draga úr áhættu. Skýrslan lýsir því hvernig Bitcoin hefur sýnt litla fylgni við hefðbundnar eignir á löngum tímabilum, þrátt fyrir tímabundnar sveiflur sem tengjast almennum markaðsviðburðum.

Bitcoin er peningakerfi með meiri fyrirsjáanleika en það kerfi sem við búum við í dag. Bitcoin er stafræn eign í endanlegu magni en aðeins verður gefin út 21 milljón eininga og þegar hafa verið gefnar út ríflega 19,8 milljónir. Útgáfa nýrra eininga er fyrirsjáanleg, örugg og óbreytanleg og er kerfið tryggt af milljónum tölva um allan heim sem jafnframt sjá um færslustaðfestingar á Bitcoin-netinu. Þessir eftirsóknarverðu eiginleikar eru algjör andstæða við hefðbundna peningakerfið þar sem gegndarlaus peningaprentun er stunduð og virði peninganna verður sífellt minna eins og fólk víða um heim finnur fyrir.

Eitt af því sem hefur skapað aukið traust á rafmyntageiranum er þróun í regluverki. Nýlegt samþykki á Bitcoin-kauphallarsjóðum, bæði í Bandaríkjunum og víðar, hafa skapað aukið öryggi fyrir fjárfesta. Þetta hefur stuðlað að meiri þátttöku stofnanafjárfesta, sem áður höfðu staðið utan við markaðinn vegna skorts á skýrleika í regluverki. Nú hafa bandarískir lífeyrissjóðir þegar stigið skrefið og fjárfest í Bitcoin-kauphallarsjóðum. Skv. könnun sem Ernst & Young kynnti í nýlegri skýrslu hafa 94% stofnanafjárfesta trú á að rafmyntir hafi virði til langs tíma, og þetta stuðlar að enn frekari vexti í geiranum.

Rafmyntir eru greinilega eignaflokkur á uppleið. Með auknu samþykki, góðri frammistöðu og áhuga frá stofnanafjárfestum eru rafmyntir orðnar álitlegur valkostur fyrir þá sem vilja fjölbreytt eignasöfn. Fyrir íslenska fjárfesta er þetta tækifæri til að stíga inn á nýjan markað sem er bæði spennandi og í miklum vexti, með möguleika á að draga úr áhættu og auka ávöxtun til lengri tíma.

Áhugavert er að skoða samanburð á frammistöðu mismunandi eigna frá árinu 2019. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur ávöxtun Bitcoin verið sú mesta á fimm af síðustu sex árum. Vissulega lækkar Bitcoin einnig mest þessara eigna árið 2022 en uppsöfnuð ávöxtun yfir tímabilið er engu að síður sú langbesta hjá Bitcoin eða yfir 1700%. Það er vert að taka það fram að eignir eins og gull og bandarísk hlutabréf hafa í raun gert mjög vel frá árinu 2019 en hafa hins vegar ekki roð við Bitcoin á tímabilinu. Íslenska hlutabréfavísitalan OMXI15 hefur átt misjöfnu gengi að fagna í tímabilinu og ávöxtun síðustu þriggja ára verið slök. Bandarísk skuldabréf hafa beðið afhroð frá 2019 og hafa verið langt frá því að halda í við mikla verðbólgu sem einkennt hefur tímabilið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Visku Digital Assets og M.Sc. í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK