Innherji: Níutíu prósentin hjá Controlant og Play

AFP

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans

ViðskiptaMogginn hefur fjallað um erfiða stöðu hjá bæði Controlant og Play. Það sem bæði félög virðast eiga sameiginlegt er áætlanagerð sem einkennist af alltof bjartsýnum hugmyndum stjórnenda. Eflaust eru stjórnendur sannfærðir þegar skjölin eru útbúin en virðast ekki átta sig á mikilvægi þess að breyta og útskýra tímanlega eða kannski það sem er enn mikilvægara, stýra væntingum fjárfesta.

Fjallað hefur verið um ábyrgð stjórnenda í þessum tilvikum, einkum þegar um hlutafjáraukningu og fjármögnun er að ræða, sem og ýmsa aðra upplýsingagjöf. Félögin starfa á ólíkum markaði og eru jafnframt ekki bundin sömu upplýsingagjöf vegna skráningar. Bæði falla þau hins vegar í sömu gildruna, virðast kynna áætlanir sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Á hluthafafundi Controlant í vikunni voru kynntar áætlanir sem sýna rekstrartölur þar sem áætlun um kjarnastarfsemi er 90% lægri en upphaflegar áætlanir. Þar var jafnframt augljóst að hluthafar eru sumir hverjir að missa þolinmæðina og virðast hóta lögsóknum á hendur stjórnendum. Ekki einungis vegna áætlanagerðar, sem virðist hafa verið byggð á sandi, heldur einnig vegna aðgerða félagsins sem miða að því að mismuna hluthöfum. Sumir hluthafa virðast hafa fengið tryggingu fyrir því að þynnast ekki út miðað við ákveðið gengi við útgáfu á nýjum bréfum. Þetta virðist ekki hafa verið kynnt öðrum hluthöfum né jafnræði viðhaft.

Stjórnendur Controlant eru reyndar ekki þeir fyrstu sem láta minnihlutavernd hluthafa sér í léttu rúmi liggja. Play er síðan með kynningarfund á morgun fimmtudag þar sem þeir fara yfir rekstur 3. ársfjórðungs og breytingar á rekstrarfyrirkomulagi félagsins. Forstjóri félagsins hefur sagt að hann þurfi ekki frekara fjármagn til rekstrarins, samt ætlar hann að skila neikvæðu eigin fé í lok árs enda stefnir reksturinn í enn meira tap en árið á undan. Stjórnendur hafa lýst yfir breytingum á leiðarkerfinu og sækja jafnframt um flugrekstrarleyfi á Möltu til að greiða fyrir fjölbreyttari starfsemi. Hver er þessi fjölbreyttari starfsemi sem félagið vísar til og hefur þetta einhver áhrif á íslenskan vinnumarkað? Aðilar í fluggeiranum eru ekki sammála um hvort þetta sé hluti af því að breyta samsetningu áhafna því þeir virðast þegar hafa það val. Hvað liggur þá að baki þessari breytingu með Möltu?

Gengi bréfa félagsins hefur fallið um tæp 90% á árinu og ljóst að tiltrú markaðarins er lítil sem engin. Þessu til viðbótar er ýmis undarlegur orðrómur á sveimi í kringum félagið er varðar rekstrarleigu á vélum þess og fleiri atriði sem óþarfi er að nefna. Stjórnendur félagsins munu án efa kynna fyrirætlanir sínar vel á fundinum og vonandi kveða í kútinn ýmsan orðróm í kringum félagið. Slíkur orðrómur er jafn mikið eitur fyrir rekstur og of bjartsýnar áætlanir eða slök upplýsingagjöf gagnvart hluthöfum.

Vonandi gengur báðum félögum vel í baráttu sinni, við sem lítil þjóð þurfum sterk fyrirtæki bæði er varðar nýsköpun og samgöngur en kannski minna af stjórnendum sem virðast ekki tengdir við veruleikann frekar en stjórnmálamenn. Bæði félög þurfa augljóslega meira fjármagn. Munurinn á loforðum stjórnmálamanna þegar þeir þurfa fjármagn í loforð sín og stjórnenda félaga er að stjórnmálamennirnir geta alltaf seilst í vasa almennings sem hefur ekkert val.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK