Vindorka hagkvæmasti kosturinn

Vindmyllur við Búrfell, hluti af verkefni Landsvirkjunar um hagkvæmni vindorku. …
Vindmyllur við Búrfell, hluti af verkefni Landsvirkjunar um hagkvæmni vindorku. Jafnvægi þarf á framboði og eftirspurn eftir rafmagni. mbl.is/Árni Sæberg

Auður Nanna Baldvinsdóttir, orkuhagfræðingur og framkvæmdastjóri Iðunnar H2, sem vinnur að undirbúningi rafeldsneytisverksmiðju á Suðurnesjum, segir að orkuvinnsla með vindi sé orðin hagkvæmasti virkjunarkosturinn á Íslandi.

Þó nokkuð mörg vindorkuverkefni eru í undirbúningi á landinu.

Auður segir í samtali við Morgunblaðið að fjárfestingarkostnaður í vindorku hafi lækkað um 40% á síðustu tíu árum vegna tækniframfara og bættrar nýtni.

Athygli veki hins vegar að þessi staðreynd hafi ekki ratað inn í kostnaðarmat Orkustofnunar og Landsvirkjunar, sem meta vindorku talsvert dýrari. Auður segir ljóst að ef allir þeir aðilar sem eru með vindorkuver í undirbúningi hér á landi miðuðu við kostnaðarmat OS, gengi dæmið ekki upp.

Hærra en þar sem það er hæst

Kostnaðarverð Landsvirkjunar er um 28 USD/MWh, eða 35 USD/MWh ef aðeins er litið til nýjustu þriggja virkjana. Það er hærra en kostnaðarverð vinds þar sem það var hæst árið 2022 á Spáni, í Bandaríkjunum og Kanada að sögn Auðar. „OS heldur því fram að íslensk vindorka verði allt að fjórum sinnum dýrari en á dýrasta stað í heiminum,“ segir Auður.

Hún segir til útskýringar að kostnaðarverð vindorku ráðist einkum af túrbínusamningum en túrbínukostnaður er 60-80% af fjárfestingarkostnaði vindorku. Einnig séu staðsetning og hönnun stórir kostnaðarliðir.

Auður er gagnrýnin á Orkustofnun og segir að þar á bæ sé ekki unnið með réttar upplýsingar og forsendur fyrir útreikningum því rangar. „Það er varhugavert að ekki sé næg þekking á vindorku innan stofnunarinnar, um það hvernig innkoma hennar í íslenskt orkukerfi gæti lækkað raforkukostnað.“

Auður segir það ekki koma á óvart að markaðsráðandi aðili eins og Landsvirkjun, sem aðrir orkusalar séu háðir vegna kaupa á sveiflujafnandi raforku, reisi viðskiptahindranir á markaðnum. „Þetta hefur gerst ítrekað annars staðar, eins og til dæmis í Frakklandi. Franski ríkisrisinn EDF setti líka upp aðgangshömlur þegar nýir aðilar með græna og ódýra vinnslutækni reyndu að komast inn á franska markaðinn. Staðreyndin er sú að vindorka kemst ekki inn á almennan markað hér á landi og enginn nýtur góðs af henni nema Landsvirkjun bjóði jöfnunarfyrirkomulag fyrir alla, því þeir eru þeir einu sem geta gert það.“

Með jöfnun á Auður við að stórnotendur þurfa að reiða sig á Landsvirkjun um kaup á raforku þegar vindurinn blæs ekki.

„Á meðan Landsvirkjun býður ekki jöfnunarsamninga á samkeppnisgrundvelli erum við í stöðu þar sem ríkið er að útiloka samkeppni. Í ofanálag erum við með stofnanir sem skilja ekki um hvað málið snýst.“ Auður segir að það sé eðlilegt að Landsvirkjun vilji verja sína tekjustofna og bjóði því ekki ódýrari keppinauta velkomna á markaðinn. „Þess vegna verðum við að gera þá kröfu til stofnana okkar að þær skilji þennan markað.“

Koma niður á almenningi

Hún segir viðskiptahindranirnar koma niður á almenningi. „Það stefnir í að raforkuverð sé að lækka á heimsvísu, þrátt fyrir að alltaf sé verið að halda öðru fram hér á landi, m.a. af markaðsráðandi aðilum sem vilja stýra umræðunni. Það eina sem þarf að gera er að halda framboði og notkun í jafnvægi og tryggja hagkvæmari virkjunarkostum markaðsaðgang.“

Mikilvægt er að sögn Auðar að hafa stjórn á raforkunotkun í þágu almennings. „Bitcoin-gagnaverin éta upp alla orku sem þau komast í á heimsvísu. Þetta er ekki íslenskt vandamál. Þau kaupa skammtímaorku á háu verði og uppbyggingin er svo einföld, bara stinga tölvunum í samband. Þetta hækkar raforkuverð til almennings.

Við getum stýrt þessu sjálf. Það þarf bara að halda jafnvægi á framboði og eftirspurn eftir rafmagni. Hvorki Orkustofnun né löggjafinn virðast hafa áttað sig á því. Einfaldasta lausnin er að banna námugröftinn, eða skattleggja hann eins og Danir og Svíar gera. Þá fara þeir notendur annað,“ segir Auður Nanna að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka