Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar segir það ekki rétt sem haft var eftir Heiðari Guðjónssyni hagfræðingi í Morgunblaðinu að íslenskur almenningur muni bera áhættuna af uppbyggingu Carbfix. Þá sé gagnrýni Heiðars á virkni losunarkerfis ESB með losunarheimildir (ETS) rýr.
„Eina efnislega gagnrýnin sem Heiðar setur fram á ETS-kerfið lýtur að skipaflutningum sem voru nýlega felldir undir kerfið,“ segir Sævar Freyr. „Þetta er lítill og afmarkaður hluti þess og hefur ekkert með viðskiptalíkan Carbfix að gera. ETS er lögbundinn og rótgróinn lykilþáttur í loftslagsaðgerðum Evrópu í 20 ár. Þetta er langstærsti kolefnismarkaður heims og hefur velt yfir 175 milljörðum evra sl. áratug. Ljóst er að markaðurinn mun áfram móta rekstrarumhverfi stórra iðnfyrirtækja sem Carbfix þjónar.
Carbfix er í samskiptum við risafyrirtæki í Evrópu og víðar sem hafa mikinn áhuga á að nýta Carbfix-tæknina. Og þau eru fullfær um að meta sjálf tækifærin og ávinninginn sem felst í að draga úr losun sinni með kolefnisföngun og bindingu,“ segir Sævar Freyr.
„Samstarf þeirra við Carbfix mun byggjast á langtímasamningum til a.m.k. 15 ára. Og þau gera eðlilega ráð fyrir að ETS-kerfið sé komið til að vera, enda er engin umræða neins staðar um að minnka vægi þess. Þvert á móti. Þá er full ástæða til að ítreka að einkafjárfestar munu bera áhættuna af stærstu fjárfestingarverkefnum Carbfix en ekki skattgreiðendur. Fjárfestingum sem geta falið í sér ígildi loðnuvertíðar í þjóðartekjum á hverju ári með fullbyggðum verkefnum,“ segir Sævar Freyr, en ítarlega var rætt við hann í miðopnuviðtali síðasta ViðskiptaMogga.