Fanga losun frá stóriðju og nýta í eldsneyti

Hópmynd sem tekin var á fundi Carbon Iceland á Hilton …
Hópmynd sem tekin var á fundi Carbon Iceland á Hilton Reykjavik Nordica. Ljósmynd/Anton Brink

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra hefur ýtt úr vör samstarfi innlendra og erlendra tæknifyrirtækja um að fanga þá losun sem kemur frá stóriðju á Íslandi og nota til framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann og önnur flutningafyrirtæki á sjó, landi og lofti.

Fulltrúar erlendra stórfyrirtækja, innlendra aðila og stjórnvalda funduðu nýverið í Reykjavík.

Búnaður frá Mitsubishi Heavy Industries

Föngunin mun byggja á reyndum búnaði og tækni frá japanska fyrirtækinu Mitsubishi Heavy Industries. Tækni og þekking frá Siemens Energy er einnig notuð í verkefninu. Carbon Iceland hefur skrifað undir samning við Norðurál um að taka fyrstu skref í að aðlaga fyrirliggjandi tækni við CO2-föngun frá álverinu á Grundartanga. Viðræður við fleiri stóriðjufyrirtæki eru langt komnar.

Frá umræðum á fundi ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála og …
Frá umræðum á fundi ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála og þeirra sem koma að Carbon Iceland-verkefninu. Ljósmynd/Anton Brink

Fulltrúar erlendu fyrirtækjanna funduðu í Reykjavík dagana 16. til 18. október með fulltrúum stjórnvalda, þar á meðal Guðlaugi Þór, auk fulltrúa frá Norðuráli, Þróunarfélagi Grundartanga, Útgerðarfélagi Reykjavíkur og Carbon Iceland.

Yfir milljón tonn á ári

„Með föngun frá stærstu aðilum stóriðjunnar sjáum við fyrir okkur að ná að fanga meira en milljón tonn af koltvísýringi á ári. Hann ætlum við að nýta til framleiðslu á grænu eldsneyti sem meðal annars getur knúið fiskiskipaflotann og þar með lagt orkuskiptum og loftslagsbókhaldi á Íslandi lið,“ er haft eftir Hallgrími Óskarssyni, framkvæmdastjóra Carbon Iceland, í tilkynningu sem barst mbl.is. 

„Auk eldsneytis fyrir vélar og tæki verður græn kolsýra einnig framleidd sem hentar bæði í matvælaframleiðslu og landbúnaði. Grænar framleiðsluvörur Carbon Iceland verða einnig eftirsóttar í lyfja- og efnaiðnaði ásamt því að einhver hluti af þessu mikla magni af CO2 gæti nýst til bindingar í jörð,“ segir hann jafnframt.

Föngun hefjist árið 2028

Vinna hefst nú við að aðlaga föngunartæknina að aðstæðum hjá Norðuráli á Grundartanga, en gert er ráð fyrir að CO2-föngun frá stóriðjunni geti hafist árið 2028 og framleiðsla eldsneytis skömmu síðar.

Norðurál.
Norðurál. mbl.is/Árni Sæberg

Carbon Iceland og Útgerðarfélag Reykjavíkur hafa skrifað undir samkomulag þar sem Carbon Iceland útvegar Útgerðarfélaginu það eldsneytismagn sem félagið mun þurfa á skip sín á næstu árum. Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur, segir verkefnið afar spennandi.

Auk þess að ýta samstarfinu formlega úr vör heimsóttu fulltrúar fyrirtækjanna álver Norðuráls og kynntu sér aðstæður. Þá tók Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, á móti hópnum í móttöku á Bessastöðum, síðastliðinn föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK