Svipmynd: Starfið hjá Lyfju er mitt orkuskot

Karen Ósk Gylfadóttir framkvæmdastjóri Lyfju segir fyrirtækið hafa stór og …
Karen Ósk Gylfadóttir framkvæmdastjóri Lyfju segir fyrirtækið hafa stór og stefnumarkandi verkefni í gangi eins og Lyfjuappið og Lyfju Heyrn. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Karen Ósk tók nýlega við sem framkvæmdastjóri Lyfju. Hún segir spennandi tíma fram undan innan samstæðu Festi þar sem Lyfja komi til með að fá enn meiri stuðning til að vaxa og efla þjónustu. Hreyfing, heilbrigður lífsstíll og fjölskyldan eru stærstu áhugamál hennar.

Hvað gerirðu til að fá orku
og innblástur í starfi?

Ég er þeirrar lukku aðnjótandi að vegferð og stefna Lyfju er það sem veitir mér innblástur á hverjum degi. Ég brenn fyrir að styðja viðskiptavini okkar í heilsuvegferð sinni og hvetja þá til að lifa heilbrigðum lífsstíl.

Þar sem ég hef ástríðu fyrir starfi mínu virkar það eins og orkuskot. Innan fyrirtækisins eru kröftug og dýnamísk teymi sem leita stöðugt leiða til að gera betur sem veita mér einnig orku og innblástur.

Hver eru helstu verkefnin
fram undan?

Það eru spennandi tímar núna hjá Lyfju. Til að mynda höfum við unnið markvisst að því að skapa aðgreiningu á markaði með því að veita framúrskarandi þjónustu. Við höfum einnig verið að breyta verslunum okkar og nú síðast settum við upp einstaklega vel heppnaða búð á Seyðisfirði. Við erum einnig með stór stefnumarkandi nýsköpunarverkefni í gangi til að styðja við okkar framtíðarsýn.

Við settum á laggirnar nýja tegund heyrnarþjónustu, Lyfju Heyrn og Lyfju-appið sem vakti mikla lukku hjá viðskiptavinum okkar. Við leggjum mikið upp úr því að hlusta á viðskiptavini og bregðast við þeirra þörfum. Það eru mörg verkefni í pípunum sem styðja við loforð okkar og stefnu; að aðstoða viðskiptavini í sinni heilsuvegferð og efla almennt lífsgæði á meðal landsmanna.

Slíkur árangur næst ekki nema með góðri samheldni, einstakri liðsheild og frábæru starfsfólki sem vinnur að sameiginlegum markmiðum dag hvern. Það eru einnig spennandi tímar fram undan innan samstæðu Festi þar sem Lyfja fær enn meiri stuðning til að vaxa og efla þjónustu við viðskiptavini um allt land.

Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?

Ég er fróðleiksþyrstur lestrarhestur svo að ég les mjög mikið. Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa og hlusta á hljóðbækur og drekka í mig fróðleik, allt er snýr að markaðsmálum, nýsköpun eða stefnumótun.

Ég tek líka oft sérsniðin netnámskeið þegar ég vil skilja eða læra nýja hluti og svo legg ég í vana minn að vera óhrædd við að spyrja spurninga og þannig læra af öllu því hæfa fólki sem ég umgengst á hverjum degi.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Eins og ég segi þá hef ég gaman af því að lesa. Seth Godin hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma í markaðsmálum. Effectiveness in Context reyndist mér vel þegar ég var að kafa hvað mest í strategíu í markaðsmálum. Mér fannst The Creative Act eftir Rick Rubin líka frábær því öll erum við að skapa í okkar daglega starfi.

Í dag er ég að lesa mér til gagns og gamans fyrir nýja hlutverkið sem framkvæmdastjóri. Til að mynda hef ég nýlokið við bókina CEO Excellence eftir ráðgjafarteymi McKinsey, sem hefur að geyma góða punkta fyrir stjórnendur. Þar sem við erum öll manneskjur að umgangast aðrar manneskjur leita ég oft í bókina The Four Agreements eftir Miguel Ruiz, en hún gerir mannlegum samskiptum og sjálfsvinnu góð skil.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Það má alveg segja að ég sé hálfgert heilsufrík og heilsusamlegur lífsstíll eigi hug minn allan. Ávallt haft gaman af því að hreyfa mig og hef kennt hóptíma samhliða starfi í tæp 14 ár. Mér þykir fátt betra en að taka góðar lyftingaæfingar með ketilbjöllum í bland við hefðbundnar lyftingar.

Ég hef líka unnið markvisst að því að auka meðvitund í mataræði. Geri kröfur á gæði innihaldsefna, vel náttúrulegar, prótínríkar og lítið unnar afurðir og huga vel að því að hafa jafnvægi í mataræðinu.

Síðastliðin ár hef ég verið meðvitaðri um þetta jafnvægi á fleiri stöðum. Andlega hliðin skiptir líka máli, að stýra streitu og gera grein fyrir hvað raunverulega nærir mig, bæði í félagsskap og áhugamálum. Hjá Lyfju hef ég öðlast gott tækifæri til að sameina aðaláhugamál mitt og starfsferil, sem er að styðja við fólk á sinni heilsuvegferð og hvetja til heilbrigðs lífsstíls.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Það mætti segja að ég starfi núna við draumastarfið þar sem ég fæ að leiða einstakan hóp af færu fólki í átt að metnaðrafullri framtíðarsýn, sem skiptir mig persónulega miklu máli.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ef ég ætti að taka stórt stökk og færa mig alveg um starfssvið myndi ég líklegast hefja nám við hestafræðideild Háskólans á Hólum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK