Hyggjast fjárfesta fyrir 227 milljarða á fimm árum

Hús Orkuveitunnar.
Hús Orkuveitunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrir árin 2025 til og með 2029, sem var samþykkt af stjórn 28. október, er gert ráð fyrir að heildarfjárfestingar á þessu fimm ára tímabili, 2025-2029, nemi 227 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu, að framlegð rekstursins fjármagni þetta að mestu leyti en gert sé ráð fyrir nettó lántöku sem nemi tæpum 37 milljörðum. Þá sé gert ráð fyrir að stærsta verkefni Carbfix, Coda Terminal kolefnisförgunarstöðin, verði fjármagnað að hluta með utanaðkomandi eiginfjármögnun, enda sé það forsenda þess að ráðist verði í verkefnið. 

Tekjur vaxi um 33%

Þá er gert ráð fyrir árlegar tekjur vaxi úr 66,4 milljörðum í útkomuspá 2024 í 88,1 milljarð árið 2029, eða um 33%.

Þá er gert ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður vaxi úr 29,2 milljörðum í 34,4 milljarða eða um 18%. Handbært fé frá rekstri vaxi úr 30,4 milljörðum samkvæmt útkomuspá 2024 í 39,8 milljarða 2029, eða um 31%.

Þá er gert ráð fyrir að eigið fé Orkuveitunnar vaxi úr 260 milljörðum í árslok 2024 í 333,7 milljarða í árslok 2029 eða um 28%. 

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Aflvaki sjálfbærrar framtíðar

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, að spáin feli í sér metnað fyrirtækisins til að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar, sem sé yfirskrift heildarstefnu fyrirtækisins.

„Gert er ráð fyrir talsverðum vexti á tímabilinu í þessari samandregnu spá fyrir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix, auk móðurfélagsins. Spá hvers félags innan samstæðunnar hafði áður verið samþykkt í viðkomandi stjórn og fer spáin til frekari umfjöllunar sem hluti fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir, að í spánni birtist stefnuáherslur Orkuveitunnar meðal annars í fjárfestingum til að tryggja öflun raforku og varma til framtíðar á sama tíma og öflugum veitukerfum sé viðhaldið, þau efld og stækkuð. Nýtni núverandi virkjana verði aukin og stutt við frekari þróun hringrásarhagkerfis tengdu jarðhitanýtingunni um leið og stórt skref verði stigið í aukinni kolefnisbindingu Carbfix.

Óviss tímasetning einstakra verkefna

Þá segir, að í  greinargerð með fjárhagsspánni komi fram að tímasetning hluta fjárfestinga Orkuveitunnar ráðist af ákvörðunum annarra, til dæmis ríkis og sveitarfélaga. Hraði uppbyggingar íbúða- og atvinnusvæða sé að nokkru leyti í höndum sveitarfélaga og byggingaraðila og leyfisveitingaferli hafa afgerandi áhrif á hvenær af einstökum fjárfestingum í orkuöflun og kolefnisförgun getur orðið.

„Um leið og við greiðum leið þeirra grænu umskipta sem eru nauðsynleg munum við gæta að því að standa vörð um grunnþjónustuna sem okkur er trúað fyrir,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, og vísar þá til þeirrar fjölbreyttu veituþjónustu, sem um þrír af hverjum íbúum landsins njóta. Þar séu rafveitan og hitaveitan grunnþættir fyrstu orkuskiptanna í landinu.

„Grunnþjónustan verður áfram traust og á sanngjörnu verði,“ segir hann, „en okkur er heldur engin launung á því að við viljum fá betra verð fyrir rafmagn til stórnotenda. Núverandi samningar, sem komnir eru til ára sinna, innihalda líka flutning á raforku, sem við viljum að kaupendur borgi milliðalaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka