Rekstrarleyfi Arnarlax í djúpinu afturkallað

Rekstrarleyfi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi hefur verið afturkallað.
Rekstrarleyfi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi hefur verið afturkallað. Ljósmynd/Aðsend

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála afturkallaði í gær 10.000 tonna rekstrarleyfi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi, en Matvælastofnun veitti rekstrarleyfið í júní síðastliðnum.

Úrskurðarnefndin taldi MAST hafa látið hjá liggja að framkvæma heildstætt vegið mat á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt gæti af því að veita undanþágu frá meginreglu um 5 kílómetra fjarlægð milli eldisstöðva óskyldra aðila.

„Þetta er óheppilegt en mun ekki hafa áhrif á langtíma áætlanir okkar um framleiðslu frjós lax á núgildandi leyfum. Við erum nú að fara yfir úrskurðinn og munum vinna með MAST að næstu skrefum,“ er haft eftir Bjørn Hembre forstjóra Arnarlax í tilkynningu vegna úrskurðarins.

Í tilkynningu Arnarlax er lögð áhersla á að rekstur á fiskeldisstöðvum í djúpinu hafi ekki verið hafinn og því hafi úrskurðurinn ekki áhrif á núverandi rekstur eða áætlanir.

Ýmsar athugasemdir við veitingu leyfisins

Forsaga málsins er sú að hlutafélagið Hábrún, sem leggur stund á sjókvíaeldi í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi, kærði ákvörðun MAST um að veita Arnarlaxi rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi með 10.000 tonna hámarkslífmassa. Í sama máli var tekin fyrir kæra vegna sama leyfis frá nokkrum öðrum aðilum, meðal annars nærliggjandi landeigendum.

Kærendur í málinu, sem úrskurðarnefndin taldi hafa lögvarða hagsmuni af því – öðrum var vísað frá – gerðu athugasemdir við efni rekstrarleyfisins, m.a. að það væri í andstöðu við reglur um siglingaöryggi, að skort hafi byggingarleyfi á grundvelli laga um mannvirki fyrir útgáfu leyfisins.

Þá byggðu þeir á því að leyfið væri í ósamræmi við ákvæði reglugerðar um fiskeldi um viðvíkjandi fjarlægðarmörk milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila.

Loks var því haldið fram að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt þar sem málsmeðferð umsóknar hafi ekki farið fram á réttum lagagrundvelli.

Of stutt á milli starfstöðva

Í kæru sinni vísaði Hábrún til þess rekstrarleyfið heimili Arnarlaxi að stunda sjókvíaeldi á svæði út af Óshlíð sem sé í innan við 3,5 km fjarlægð frá eldissvæðum Hábrúnar. Hábrún taldi nýtt eldissvæði ótengds aðila, sem staðsett yrði svo skammt frá starfsstöðvum þess, ógna heilbrigði og velferð eldisfiska þess og rekstrargrundvelli félagsins.

Vísaði Hábrún til reglugerðar um fiskeldi sem kveður á um að MAST skuli tryggja að minnsta fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi samkvæmt meginviðmiði sé eigi styttri en 5 kílómetrar miðað við útmörk hverrar fiskeldisstöðvar.

Auki lúsaálag á stofna í firðinum

Hábrún benti meðal annars á að í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá því í febrúar 2021, sem liggi til grundvallar rekstrarleyfinu, komi fram að með hliðsjón af reynslu síðustu ára sé líklegt að laxalús og fiskilús eigi eftir að koma reglulega upp í eldi leyfishafa í Ísafjarðardjúpi.

Líklegt sé að fyrirhugað eldi komi til með að auka lúsaálag á þá stofna sem séu í firðinum.

Meiri líkur séu á að sjúkdómar og sníkjudýr berist á milli eldissvæða eftir því sem styttra sé á milli þeirra.

Ekki heimild til að hafna umsókn

MAST leit svo á að heimilt væri að víkja frá meginviðmiði  reglugerðarinnar og heimila styttri fjarlægð milli fiskeldisstöðva þegar ljóst væri að aðilar hygðust viðhafa samræmdar aðgerðir til vöktunar- og viðbragðsáætlanir varðandi forvarnir og meðferð vegna fisksjúkdóma og sníkjudýra, og starfa sem einn aðili komi upp slík tilfelli, en skilyrði þar að lútandi hafi verið að finna í hinu kærða rekstrarleyfi.

MAST bar þannig fyrir sig að umþrætt ákvæði í reglugerð um 5 kílómetra meginviðmið feli ekki í sér fortakslaust bann við styttri fjarlægðum. Þannig sé í því ekki veitt heimild til að hafna umsókn um rekstrarleyfi. Einungis sé gerður áskilnaður um samráð við Hafrannsóknastofnun.

Þá benti stofnunin meðal annars á að reglan snúi fyrst og fremst að smitvörnum en ekki sníkjudýrum, enda ferðist sníkjudýr eins og laxalús mun lengra en 5 kílómetra. Þá sé í öllum tilvikum miðað við útmörk hverrar fiskeldisstöðvar varðandi fjarlægðir á milli rekstraraðila.

Skortur á heildstæðu vegnu mati

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er bent á að MAST hafi verið skylt að taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar. Þá vísar nefndin til þeirrar meginreglu, sem kemur fram í lögum um náttúruvernd að áhrif á náttúru svæðis skuli metin út frá heildarálagi sem á svæðinu er eða það kann að verða fyrir.

Úrskurðarnefndin telur ekki ráðið af greinargerð MAST að nokkurt heildstætt vegið mat hafi farið fram á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt gæti af því að veita greinda undanþágu frá fyrrgreindri 5 kílómetra viðmiðun fjarlægðar.

Af þeirri ástæðu og með vísan til þeirra ríku skyldna sem hvíla á MAST við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum ákvað úrskurðarnefndin að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Fleiri annmarkar

Úrskurðarnefndin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferð á umsókn um rekstrarleyfið. Þá þótti úrskurðarnefndinni undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki haldinn annmarka hvað snertir forsvaranlegt mat á siglingum og siglingaöryggi vegna hinnar heimiluðu starfsemi á eldissvæðunum Drangsvík og Eyjahlíð.

Aftur á móti taldi úrskurðarnefndin að ekki yrði litið hjá afdráttarlausri neikvæðri afstöðu til áhrifa á siglingaöryggi sem finna má í áhættumati fyrir eldissvæðið Óshlíð, þar sem engar mögulegar breytingar eða mótvægisaðgerðir eru taldar auðsæjar, á svæði þar sem skipaumferð er umtalsverð.

Í því ljósi taldi nefndin að ekki hafi verið skilyrði til að gefa út rekstrarleyfi sem heimili fiskeldi á svæðinu og að hin kærða ákvörðun væri haldin annmörkum að þessu leyti til.

Þá taldi úrskurðarnefndin vanta heildstæða samræmingu á útsetningu seiða, slátrun og hvíld svæða í Ísafjarðardjúpi og rökstudda afstöðu MAST til þessa á grundvelli efnislegra sjónarmiða sem varða m.a. hættu á útbreiðslu sjúkdóma og sníkjudýra. Að teknu tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í Ísafjarðardjúpi, þar sem eru starfandi fleiri rekstraraðilar fiskeldis samtímis en í öðrum fjörðum eða hafsvæðum hér við land, taldi nefndin þetta til annmarka á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka