Vörumerkjastofan brandr stendur nú í fimmta sinn fyrir vali á bestu íslensku vörumerkjunum. Þetta er metnaðarfullt verkefni, eins og heyra má á orðum Írisar Mjallar Gylfadóttur framkvæmdastjóra, en hún segir í samtali við Morgunblaðið að verkefnið hafi skilað auknu umtali um mikilvægi vörumerkja og lyft umræðunni á hærra plan.
Valnefndin í ár hefur lokið störfum og tilnefningar verða birtar innan tíðar. Líkt og áður eru fimm vörumerki tilnefnd í hverjum flokki en almenningi gafst einnig kostur á að tilnefna fyrirtæki á vefsíðunni brandr.is.
Úrslit verða kunngjörð í febrúar næstkomandi.
Á síðasta ári vann ferðaþjónustufyrirtækið Bláa lónið í flokki fyrirtækja á einstaklingsmarkaði með 50 starfsmenn eða fleiri, bíla- og hjólaleigan Hopp í flokki fyrirtækja á einstaklingsmarkaði með 49 starfsmenn eða færri, sendingarfyrirtækið Dropp á fyrirtækjamarkaði og verslunarrisinn Ikea í flokki alþjóðlegra vörumerkja á Íslandi.
Íris Mjöll segir að afhending viðurkenninga verði með nýju sniði í þetta sinn. Hingað til hefur hún farið fram í beinu streymi á netinu en verður nú í formi viðburðar. „Við verðum með leiðtogafund fyrir hlé þar sem við munum m.a. fá áhugaverða erlenda fyrirlesara til okkar. Eftir hlé verða viðurkenningar veittar,“ segir Íris.
Í ár verður í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir besta vörumerki vinnustaðar. „Þar horfum við til vinnustaða sem laða að hæfileikaríkt starfsfólk, hafa skýra stefnu, er mælt með af starfsmönnum, bjóða upp á þróunartækifæri og halda vel í starfsfólk,“ útskýrir Íris.
Hún segir fyrirtæki sem sækjast eftir tilnefningu í vinnustaðaflokknum skila inn vörumerkjakynningu líkt og gert er í öðrum flokkum en þó með aðeins öðruvísi áherslu. „Vörumerkjakynningin vegur 60% og svo keyra þessi félög brandr-vísitölu vinnustaðar sem vegur 40%. Brandr-vísitala vinnustaðar er einföld könnun sem send er á starfsfólk og með henni er safnað verðmætum gögnum um stöðu vinnustaðarins sem vörumerkis.“
Íris segir að í sumum fyrirtækjum sé ákveðið rof á milli markaðsfólks og mannauðsfólks. „Hjá þessum fyrirtækjum er algengara að mannauðsfólk leiti til markaðsfólks en ekki öfugt. Við viljum opna augu fyrirtækja og sýna með áþreifanlegum hætti hversu mikilvægt samspilið er á milli vörumerkis, mannauðs og menningar. Það er ekki bara markaðsdeildin sem á vörumerkið. Það verður ákaflega gaman að fylgjast með þessum nýja flokki í ár. Mörg mjög flott vörumerki eru komin á blað sem eru að standa sig virkilega vel í mörkun vinnustaðar (e. employee branding).“
Valnefnd verðlaunanna samanstendur líkt og áður af öflugum hópi forstjóra og markaðs- og mannauðsstjóra, ásamt fólki úr fræðasamfélaginu. „Það að þetta flotta fólk gefi sér tíma í þessa vinnu segir allt um þá vitundarvakningu sem er að verða um mikilvægi góðs vörumerkis.“
Íris segir lífsnauðsynlegt fyrir fyrirtæki að þekkja sjálf sig og markhópa sína, hvernig viðskiptavinir upplifi þau og með hvaða hætti þau geti aðgreint sig frá samkeppnisaðilunum. Þar spilar staðfærsla vörumerkisins lykilhlutverk að hennar sögn.
Sem dæmi þar um nefnir Íris nýlega könnun þar sem segir að þekkt vörumerki geti boðið 18% lægri laun en sambærileg fyrirtæki á sama markaði. „Fólk metur þar meðal annars mikils að geta sett það á ferilskrá sína að hafa unnið hjá viðkomandi félagi.“
Að lokum segir Íris að til gamans megi geta þess að viðurkenningar fyrir bestu færeysku vörumerkin 2024 verði nú afhent í fyrsta sinn, en brandr opnaði nýverið útibú í Færeyjum eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í maí síðastliðnum.