Arðsemi Arion 12,2% fyrstu 9 mánuði ársins

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Arðsemi eiginfjár Arion banka var 12,2% fyrstu níu mánuði þessa árs samanborið við 13,9% fyrstu níu mánuði síðasta árs.

Arion banki hagnaðist um 17,8 milljarða króna á tímabilinu samanborið við 19,5 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Hreinar þóknanatekjur fyrstu níu mánuði þessa árs námu 11,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og dragast saman um 10,1% frá fyrra ári.

Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), aukast um 4,3% samanborið við fyrstu níu mánuði síðasta árs. Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 43,8%, samanborið við 41,4% á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarkostnaður bankans hækkar um 10,4% samanborið við sama tímabil 2023.

Úr fjárfestakynningu Arion banka.
Úr fjárfestakynningu Arion banka.

Arðsemin á fjórðungnum hækkar milli ára

Hagnaður Arion banka á þriðja ársfjórðungi þessa árs var 7,9 milljarðar króna, samanborið við 6,1 milljarður króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 16,1% fjórðungnum, samanborið við 12,9% á þriðja ársfjórðungi 2023.

Haft er eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, í fréttatilkynningu að afkoma bankans á þriðja ársfjórðugi sé góð og hafi verið í samræmi við áætlanir.

„Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hve vel starfsemi Varðar trygginga gekk á fjórðungnum en um er að ræða einn besta ársfjórðung í sögu fyrirtækisins. Aðrir þættir í okkar kjarnastarfsemi gengu sömuleiðis vel og skila góðri afkomu. Óhætt er að segja að áhersla okkar á fjölbreytta fjármálaþjónustu og þar með fjölbreyttar tekjustoðir stuðli að ákveðnum stöðugleika í okkar starfsemi. Sem fyrr er eigin- og lausafjárstaða bankans sterk og vel yfir kröfum eftirlitsaðila, er haft eftir Benedikt.

Lána allt að 15 milljarða til smærri fyrirtækja

Í tilkynningunni segir enn fremur að í septembermánuði hafi Arion banki endurnýjað samstarf sitt við Evrópska fjárfestingasjóðinn.

„Við unnum saman fyrir um átta árum og það samstarf lagði grunninn að öflugum stuðningi við fjölmörg nýsköpunarverkefni hér á landi t.a.m. á sviði fiskeldis, gagnavera, umhverfisvænna orkugjafa og húðvara. Markmið samstarfs okkar nú er að styðja sértaklega við íslenska frumkvöðla í gegnum lánveitingar sem Evrópski fjárfestingarsjóðurinn mun ábyrgjast. Samstarfið gerir okkur kleift að lána allt að 15 milljarða króna til smárra og meðalstórra fyrirtækja á hagstæðari kjörum en ella og koma fyrr að verkefnum sem þurfa á fjármagni að halda,” er haft eftir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka