Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans
ViðskiptaMogginn hefur fjallað um mismunandi áhættuþætti varðandi vaxtalækkunarferli Seðlabankans sem nú er blessunarlega hafið. Greinendur spá sumir 50 punkta lækkun á næsta fundi peningastefnunefndar í nóvember. Langt er þó í land ef horft er á vaxtastig landsins en skrefin jákvæð.
Slit ríkisstjórnarinnar hafa engin áhrif á það ferli að mati Seðlabankans enda starfar hann í stöðugri stjórnmálalegri óvissu. Það verður þó að segjast að miðað við frambjóðendur sem raðast upp á lista flokkanna þessa dagana og innri baráttu frá t.d. Samfylkingu, sem augljóslega hefur engan áhuga á fyrrverandi borgarstjóra, er þessi stjórnmálalega áhætta mögulega meiri en áður.
Lítið atriði eins og samsetning á kílómetragjaldi bifreiða getur haft áhrif á samsetningu vísitölunnar. Allt eftir mati Hagstofunnar. Ekkert liggur enn fyrir hvaða kílómetragjald verður lagt á á næsta ári, sem þó er boðað á dísel- og bensínbíla, eða hvaða áhrif þetta muni hafa á vísitöluna og bensínverð. Hvað mun ný ríkisstjórn leggja til í þessum málum sem öðrum?
Það er kannski erfitt að lesa í stjórnmálin sem stendur og komandi ríkisstjórn þrátt fyrir ýmsar kannanir. Mögulega er ástæðan sú að þessi svokölluðu andlit landsins, sem eru þjóðþekkt, hafa mörg hver einfaldlega sagt að þau séu tilbúin að vinna fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er. Sum sé, þau hafa engin stefnumál. Á ensku er þetta stundum kallað „Talking head“ sem á rætur sínar að rekja til sjónvarps. Höfuðið birtist áhorfandanum og er þekkt en innihaldið er ekkert.
Nú eru verkföll skollin á meðal kennara. Engin virðist kröfugerðin, eða í öllu falli mjög óljós. Sumir hafa fleygt því fram að krafan sé um sérfræðilaun hjá ríkinu sem þá reiknast um 1 milljón á mánuði. Ef þetta launaskrið fer allt í gang þá er ekki hægt að sjá annað en að aðrir samningar í þjóðfélaginu varðandi hinar vinnandi stéttir séu í uppnámi. Ef það er í uppnámi þá er augljóslega vaxtalækkunarferli Seðlabankans í uppnámi. Það væri því líklega betra að hafa kröfugerðina á hreinu sem fyrst.
Almenningur er upp til hópa kominn með nóg af matreiðslu stjórnmálamanna og sumra leiðtoga efnahagslífsins um hvað megi segja og hvernig. Það er skýr krafa að segja hlutina einfaldlega eins og þeir eru. inn er sagna bestur en honum verða líka aðilar sárreiðastir.
Við gerum öll mistök. Sum okkar eru hins vegar í þannig aðstöðu að mistökin hafa áhrif á lífsviðurværi heildarinnar í gegnum atriði sem reiknast inn í grunnvísitölur, sem á endanum hækka lán almennings. Það þarf því að vanda valið sérstaklega í stjórnmálunum og segja hlutina eins og þeir eru.
Miðað við orðræðuna í talandi höfðum samfélagsins er hins vegar ekki von á góðu.