Eitt mikilvægasta viðfangsefnið við undirbúning raforkuframleiðslu með vindorku er að tryggja orku þegar vindur blæs lítið eða ekki. Í þessu samhengi er hér talað um jöfnunarorku, til að jafna afhendingu orku til viðskiptavina.
Þetta segir Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Ísland, sem hyggst reisa vindmyllugarða á nokkrum stöðum á landinu. Friðjón segir að sú jöfnunarorka sem Landsvirkjun hefur sagt að sé til að dreifa fyrir öll þau vindorkuverkefni sem eru í rammaáætlun sé í kringum 30 megavött.
Friðjón bendir enn fremur á að raforkuflutningsfyrirtækið Landsnet hafi á ársfundi sínum 2023 sagt að hægt væri að taka á móti 2.500 MW af sveigjanlegri framleiðslu eins og vindorku. „Mest af slíkri getu til sveiflujöfnunar kemur frá stýranlegri orkuframleiðslu, í okkar kerfi fyrst og fremst frá miðlunarkerfi vatnsaflsvirkjana. Nánast öll slík miðlun í orkukerfi landsins er á höndum Landsvirkjunar og enginn annar aðili mun geta komið upp slíku kerfi í framtíðinni,“ útskýrir Friðjón.
Auður Nanna Baldvinsdóttir, orkuhagfræðingur og framkvæmdastjóri Iðunnar H2, talaði á svipuðum nótum í frétt í ViðskiptaMogganum í síðustu viku og sagði að vindorka kæmist ekki inn á almennan markað hér á landi og enginn nyti góðs af henni nema Landsvirkjun byði jöfnunarfyrirkomulag fyrir alla.
Friðjón segir að fyrirtæki í vindorkuþróun þurfi að svara ýmsum spurningum um fyrirætlanir sínar á kynningum og fundum en spurningin um jöfnunarorkuna sé sú sem torveldast sé að svara fyrir aðra en Landsvirkjun – þ.e. hvað gerist þegar vindinn lægir?
„Mergur málsins er sá að Landsvirkjun lýsti því yfir í febrúar 2023 að fyrirtækið ætlaði að veita mjög takmarkaðri orku til jöfnunar vindorkuaðila, á bilinu 0-30 MW alls,“ útskýrir Friðjón.
Hann líkir þessu við internetið. „Það að Landsvirkjun vilji ekki jafna hjá vindorkuverum er álíka og ef Míla segði að eingöngu ríkisfyrirtæki mættu senda tölvupósta og fara á netið, nema á þriðjudögum. Þá mætti almenningur gera það líka.“
Friðjón tekur dæmi af vindorkugarði með 100 MW uppsett afl og meðalframleiðslu líkt og vindur blési af fullu afli 40% tímans.
„Það þýðir 40% nýtingarhlutfall og að framleiðslan jafnist á við 40 MW að jafnaði. Suma daga er framleiðslan allt að eða um 100 MW og aðra daga er framleiðslan minni, jafnvel allt niður í logn. Þessi garður gerir raforkusamning við aðila sem vill fá stöðugt afl, 40 MW alla daga. Til að geta staðið við samninginn væri eðlilegast að gera samning við Landsvirkjun um að afhenda þeim alla framleiðslu vindorkugarðsins umfram 40 MW. Á móti myndi Landsvirkjun tryggja afhendingu þess sem vantar upp á 40 MW framleiðslu vindorkugarðsins hverju sinni. Orkuna sem Landsvirkjun fengi umfram 40 MW framleiðslu vindorkugarðsins myndi Landsvirkjun eftir atvikum nýta til að viðhalda eða bæta stöðu miðlunarlóna sinna. Hér væri Landsvirkjun að bjóða upp á þjónustu sem fyrirtækið myndi selja.“
Friðjón segist hafa spurt Landsvirkjun út í málið sem og sótt fund orkufyrirtækisins í febrúar 2023 sem bar yfirskriftina: Hvað gerist þegar vindinn lægir? Þar var orkuskorti m.a. kennt um jöfnunarskortinn. „Landsvirkjun ber einnig fyrir sig að þeir megi ekki kaupa raforku þar sem þeir séu markaðsráðandi. Það skýtur þó skökku við að hafa heyrt að Landsvirkjun sé kaupandi raforku á markaði.“
Friðjón segir að spurningin um jöfnunarorkuna sé mjög lifandi í kerfinu og hafi áhrif á trúverðugleika þeirra sem eru með vindorkuverkefni í undirbúningi. „Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar eru þeir aðilar sem myndu njóta mests ágóða af því að fyrirtæki eins og við kæmum inn á markaðinn með vindorku. Þannig gæti Landsvirkjun stýrt miðlunarlónum sínum í takt við þarfir viðskiptavina sinna og afstýrt skerðingum, enda hefur Landsvirkjun ítrekað fjallað um hagkvæmni samspils vindorku og miðlunarlóna.“
Þrátt fyrir að 34 vindorkuverkefni séu í rammaáætlun séu sum þeirra einungis hugmyndir á blaði, enda hafi áhugasamir aðilar verið hvattir til að sækja um á sínum tíma til vonar og vara, þegar Orkustofnun auglýsti eftir vindorkuverkefnum í fjórðu rammaáætlun. „Ég tel að þetta útspil Orkustofnunar hafi verið mistök. Margir urðu hvumsa þegar það var tilkynnt að 34 verkefni væru komin af stað. En það er alls ekki raunin.“
Hann segir að líklega séu 10-15 verkefni komin eitthvað áleiðis í rannsóknarferli. Þar á meðal eru verkefni Qair, sem stefnir á að hefja raforkuframleiðslu árið 2027. „Svo er útlit fyrir að innviðirnir rúmi ekki nema 4-5 vindorkuverkefni næstu 10-20 ár og Landsvirkjun á nú þegar tvö þeirra, Búrfellslund og Blöndulund. Núverandi flutningskerfi raforku ræður ekki við fleiri vindorkuverkefni en þetta, auk þess sem jöfnun er af skornum skammti, eins og fyrr sagði. Því er mikil samkeppni fram undan um þessi takmörkuðu gæði.“
Friðjón segir að tilkoma vindorkuveranna verði til góðs fyrir íslenskt samfélag. „Í fyrsta lagi þarf að framleiða meiri raforku og við munum sem samfélag ekki ná markmiðum okkar í orkuskiptum, raforkuöryggi og uppbyggingu án þess að virkja vindinn. Vindorka er auk þess hagstæðasta leiðin til aukinnar raforkuframleiðslu á landinu í dag.“
Hann segir, rétt eins og Auður Nanna sagði í ViðskiptaMogganum, að kostnaður á hvert MW sé lægstur í vindorku. „Kostnaður á hvert MW vatnsaflsvirkjunarinnar Hvammsvirkjunar sem Landsvirkjun er með í undirbúningi verður rúmlega 700 milljónir króna. Þumalputtareglan í vindorku er 200 milljónir á MW. Á móti kemur að nýtingartími vindorku er minni.“
Friðjón segir að mögulega átti sig ekki allir á þeim fjárfestingarkostnaði sem fram undan er í uppbyggingu raforkukerfis landsins, samfara orkuskiptum. Hann spyr hvort fólk sé reiðubúið að láta ríkisfyrirtækin fara í þúsunda milljarða króna áhættufjárfestingar. „Ísland stefnir á kolefnishlutleysi árið 2040, eða eftir 16 ár. Það kallar á 4-6.000 milljarða fjárfestingu í orkumannvirkjum. Jafnvel þótt orkuskiptin tækju lengri tíma en stefnt er að, væru slíkar fjárfestingar meiri en svo að ríkið og ríkisfyrirtækin gætu ráðið við það. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort fyrirtæki í eigu þjóðarinnar eigi að fara þá leið, en það er rétt að benda á að ríkisfyrirtækin hafa sáralitla reynslu af vindorku og litla sem enga af vetnisframleiðslu. Þessi verkefni verða ekki leyst án aðkomu einkaframtaks. Það verður að tryggja að svo geti orðið, enda er um samkeppnismarkað að ræða,“ segir Friðjón að lokum.