Ætíð þegar fólk fjárfestir á ákveðnum markaði er það að veðja á styrkleika viðkomandi lands eða hagkerfis. Eins og hvort hagvöxtur og framleiðni standi undir vexti og framförum þegar litið er til lengri tíma. Kannski er líka verið að veðja á stjórnarfarið, það er að segja hvort stjórnarfarið sé stöðugt, hvort borin sé virðing fyrir eignarrétti og hvort viðskiptafrelsi sé fyrir hendi. Í þessu mati hafa lýðræði og mannréttindi alls ekki skipt höfuðmáli fyrir fjárfesta. Meira máli hefur skipt að stjórnarfarið sé stöðugt. Þannig hefur Kína dregið að sér gríðarmiklar erlendar fjárfestingar á síðustu áratugum jafnvel þótt íbúar landsins búi við einræði og mjög takmörkuð lýðréttindi. Jafnvel hefur verið talið að lýðræði geti verið ókostur þar sem popúlistar eða öfgamenn geti náð völdum og umbreytt öllu. Hér væri hægt að vitna í hin fleygu orð Mussolinis: „Lýðræðið er rotnandi hræ.“
Við heyrum því gjarnan fjallað um kosningar í Evrópu líkt og þar sé allt undir. Brjálæðingar geti komist til valda sem aftur geti leitt til óskilgreindra hörmunga. Hér má til dæmis nefna kosningasigur Bræðralags Ítalíu í október 2022 sem gerði Giorgiu Meloni að fyrstu konunni til þess að verða forsætisráðherra Ítalíu. Heldur lítið hefur orðið úr þeim hrakspám sem settar voru fram þegar hún tók við völdum. Raunar virðist hún hafa staðið sig ágætlega ef litið er til efnahagsmála.
Umræðan um yfirvofandi kosningar í Bandaríkjunum þann 5. nóvember næstkomandi hefur verið með sama hætti. Það er eins og allt sé undir því komið að Donald Trump komist eða komist ekki aftur í forsetastólinn. Án þess að tekin sé afstaða til þess hvort sigur Donalds Trumps eða Kamölu Harris sé hagstæðari fyrir efnahagsmál landsins, þá er ástæða til þess að leggja að fjárfestum að treysta lýðræðinu. Það er einnig svo að hagvöxtur og framleiðni virðast vera nokkuð ótengd þeim persónum sem sitja við völd hverju sinni í Bandaríkjunum heldur ráðast þessir þættir af stofnanaumgjörð og styrk hagkerfisins. Bandaríska hagkerfið er ákaflega sterkt og hefur raunar skotist fram úr Evrópu og Asíu. Fátt bendir til þess að kjör Trumps eða Harris muni breyta þeirri staðreynd.
Samt sem áður er áhugavert að velta fyrir sér þýðingu og úrslitum bandarísku forsetakosninganna.
Á síðasta upplýsingafundi fjárfestingasjóðsins Spaks Invest sem haldinn var 8. október síðastliðinn var fjallað um komandi kosningar og þá hvaða efnahagslegu áhrif kosningarnar í Bandaríkjunum kynnu að hafa. Við fengum til okkar einn mesta reynslubolta Íslands í þessum málaflokki bæði þegar kemur að pólitík og efnahagsmálum, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.
Á fundinum var gestum boðið upp á súkkulaðiköku sem var skipt í tvo helminga – bláan og rauðan. Hér má nefna að repúblikanar eiga rauðan lit og demókratar bláan. Þessi óformlega skoðanakönnun á úrslitum kosninganna þann 5. nóvember næstkomandi endurspeglaði þá trú Geirs að kosningarnar yrðu hnífjafnar, þar sem jafn mikið var skorið af rauðum og bláum hluta kökunnar.
Við þetta má bæta að mikið endurmat hefur átt sér stað á síðustu 2-3 árum á því hvernig rétt sé að meta pólitíska áhættu og þá jafnframt komið fram að lýðræði sé mun mikilvægari jákvæður áhrifaþáttur en áður var talið. Til að mynda hefur verulega dregið úr erlendum fjárfestingum í Kína þar sem fjárfestar hafa verið að missa trúna á stjórnarfari landsins af ýmsum orsökum. Lýðræði er eina stjórnarfarið sem tryggir stöðugleika og framfarir til lengri tíma. Og það er mikilvægt að treysta kjósendum í kjörklefanum.
Höfundur, Helga Viðarsdóttir, er eigandi og sjóðstjóri Spaks Invest hf.