Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að það séu mikil tækifæri í tengiflugi yfir Atlantshafið þó svo að Play hafi ekki tekist að nýta þau og forsvarsmenn félagsins hafi haldið því fram að tækifærin séu ekki til staðar.
Hann ræðir um rekstur Icelandair, tækifærin og áskoranirnar í flugrekstri í viðtali við ViðskiptaMoggann.
„Við sjáum mikil tækifæri í okkar leiðakerfi. Markaðurinn er dýnamískur og við verðum stöðugt að aðlaga okkur samkeppnisumhverfinu. Það ríkir mikil samkeppni á þessum markaði en um 25-30 flugfélög fljúga alla jafna til og frá Íslandi, fyrir utan samkeppnina yfir hafið. Við teljum að staðsetning Íslands sé okkar helsta samkeppnisforskot, sé hún nýtt rétt. Að fljúga í gegnum Ísland hefur meðal annars gert okkur kleift að komast lengra en erlend flugfélög á samskonar vélum, og nú er sú vegalengd að lengjast,“ segir Bogi og lýsir því að Icelandair muni komast lengra inn í Norður-Ameríku en evrópsk flugfélög á Airbus LR og XLR og lengra inn í Evrópu en bandarísk flugfélög.
„Við höfum jafnframt verið að byggja upp fleiri tengibanka í Keflavík til þess að búa til hagkvæmar tengingar lengra inn í Ameríku og meginland Evrópu en áður. Nýjar flugvélategundir sem Icelandair og önnur flugfélög eru að taka inn í sína flota munu því skapa mikil tækifæri fyrir okkur hér á Íslandi,“ segir Bogi.
Á undanförnu ári hefur framboð á flugi til Ameríku aukist verulega, sem hefur haft áhrif á rekstrarniðurstöðu Icelandair.
„Það eru áskoranir sem blasa við en þær eru alltaf til staðar í þessum rekstri þótt þær séu ekki þær sömu á hverjum tíma. Við þurfum að takast á við þær eins og Icelandair hefur gert í áratugi. Við sjáum mikil tækifæri til framtíðar fyrir okkar leiðakerfi, sem við stækkum í samstarfi við önnur flugfélög, og svo með tilkomu Airbus-vélanna. Þær munu gera okkur kleift að opna nýja markaði sem munu festa Ísland ennþá betur í sessi sem öfluga tengimiðstöð í flugi og sem spennandi áfangastað ferðamanna,“ segir Bogi.
Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.