Tafir þýða dýrari Hvammsvirkjun

Drög að því hvernig Hvammsvirkjun gæti litið út.
Drög að því hvernig Hvammsvirkjun gæti litið út. Tölvumynd/Landsvirkjun

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir 300 til 400 manns munu vinna við byggingu Hvammsvirkjunar þegar framkvæmdin nær hámarki árið 2027.

Kostnaður við verkefnið hafi verið áætlaður um 70 milljarðar króna á fyrri stigum en vegna tafa og almennra verðhækkana þurfi að endurmeta þá tölu til hækkunar. Áformað sé að opna tilboð í fyrstu framkvæmdir í næstu viku og hefja uppbyggingu í desember.

Endurvinna þarf hluti

„Kostnaðaráætlun er í endurskoðun. Hún liggur ekki fyrir. Kostnaður hefur verið að hækka í heiminum og svo hefur kostnaður safnast saman af því að verkefnið tekur langan tíma. Það veldur hækkunum og þýðir að endurvinna þarf hluti,“ segir Hörður. Með því vísar hann meðal annars til þess að efna þurfi til útboða á ný vegna tafa.

Tekjur Landsvirkjunar eru að hluta tengdar álverði. Álverðið er nú um 2.650 dalir tonnið í Kauphöllinni með málma í London (LME) og hefur því hækkað um rúma 400 dali síðan það náði lágmarki um mánaðamótin júlí og ágúst er það var rúmlega 2.200 dalir.

Hörður segir aðspurður að þessar hækkanir muni skila Landsvirkjun auknum tekjum í ár. Meðal skýringa á verðhækkuninni er aukinn innflutningur til Kína, helsta álframleiðanda heims.

Þurfa hærra verð

Á það ber að líta að heimurinn hefur gengið í gegnum verðbólguskeið eftir að farsóttin hófst í mars 2020 og hefur verð á hrávöru hækkað, sem og verðlag almennt. Íslensku álverin þurfa því hærra verð fyrir álið en áður til að skila hagnaði. Að sögn Harðar er tekið tillit til þessa í hinum álverðstengdu samningum en hann geti ekki farið nánar út í þau ákvæði samninganna.
Haustfundur Landsvirkjunar fer fram á Selfossi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka