„Við munum áfram halda úti öflugri starfsemi á Norðurlandi undir merkjum ÍV,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, í samtali við viðskiptavef mbl.is.
Tilkynnt var í vikunni að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi samþykkt að Skagi fari með virkan eignarhlut í Íslenskum verðbréfum og ÍV sjóðum. Samþykki FME var síðasti fyrirvarinn við kaup Skaga á um 97% hlutafjár í Íslenskum verðbéfum sem tilkynnt var um sl. vor. Áður hafi Samkeppniseftirlitið ekki talið forsendur til þess að aðhafast vegna samruna félaganna.
Þegar tilkynnt var um kaupin var horft er til þess að í kjölfarið verði farið í kaup hlutafjár annarra hluthafa þannig að Skagi verði einn eigandi alls hlutafjár í Íslenskum verðbréfum. Kaupverð 97,07% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum er 1.598 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að kaupverðið verði greitt með reiðufé, en Skagi hefur val um að greiða allt að fjórðungi kaupverðsins með afhendingu nýs hlutafjár í Skaga.
Haraldur segir að nú sé hægt að ljúka frágangi á kaupunum og í hönd fari samþættingarferli þar sem starfsemi ÍV verður hluti af samstæðu Skaga.
Haraldur ávarpaði í gær starfsfólk, viðskiptavini og vellunnara í móttöku í Hofi á Akureyri í gær.
Hann segist hafa upplýst gesti um að Skagi hyggðist sækja enn meira fram í tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringu.
„ÍV er mikilvægur hluti af þeirri framtíðarsýn, með langa sögu, öflugt teymi og sterkt vörumerki. Ég greindi frá því á Akureyri að horft til framtíðar myndi eigna- og sjóðastýringarstarfsemi Skaga verða rekið undir nafni Íslenskra verðbréfa, sem var einkar ánægjulegt,“ segir Haraldur.