Leitaði og fann þrjú fyrirtæki

Útgangspunkturinn er ávallt viðskiptaleg markmið viðskiptavina að sögn Hlöðvers Þórs …
Útgangspunkturinn er ávallt viðskiptaleg markmið viðskiptavina að sögn Hlöðvers Þórs Árnasonar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Á morgun, föstudaginn 1. nóvember, munu upplýsingatæknifyrirtækin Andes, Prógramm og Miracle sameinast undir nafninu APRÓ. Höfuðstöðvar félagsins eru í Urðarhvarfi í Reykjavík.

Áttatíu manns munu vinna hjá hinu sameinaða félagi og ársveltan verður ríflega tveir milljarðar króna.

Saga fyrirtækisins er áhugaverð eins og Hlöðver Þór Árnason forstjóri fer yfir með blaðamanni.

„Það má rekja upphafið til þess þegar ég hætti störfum í upplýsingatæknideild Kviku banka og fór að skoða ný tækifæri. Ég átti samtal við Leitar sem rekur leitarsjóði þar sem einstaklingar, oft nýkomnir úr MBA-námi, eru styrktir til að finna fyrirtæki til að kaupa og reka í ákveðinn tíma með það að markmiði að auka verðmæti þeirra og selja aftur.“

Stofnaði Parka

Hlöðver hefur reynslu af nýsköpun en hann er einn stofnenda og eigenda bílastæðaappsins Parka.

Hlöðver segist hafa verið heppinn að verða með þeim fyrstu sem urðu „Leitarar“ og fóru inn í prógrammið hjá Leitar. „Skyndilega, í maí 2023, var ég kominn með samþykkt kauptilboð í tvö fyrirtæki, Andes og Prógramm. Þá vandaðist málið. Átti ég að velja á milli þeirra eða fara aðra leið? Ég ákvað að hugsa stærra og kaupa bæði félög og þróa áfram og búa til nútímaupplýsingatæknifyrirtæki. Fyrirtækin voru nú orðin tvö púsl í stærri mynd.“

Allt hlutafé fyrirtækjanna var því keypt af Hlöðveri og fjárfestum innan Leitar. „Við tókum það besta úr báðum félögum og sameinuðum í APRÓ, sem var sérstaklega stofnað sem móðurfélag hinna tveggja. Við ákváðum að leggja megináherslu á mannauðshlutann. Í upplýsingatækni liggja mestu verðmætin yfirleitt þar, þekkingin og reynslan. Tæknifólkið er rokkstjörnurnar í svona fyrirtækjum.“

Flatur strúktúr

Hlöðver segir að byggt hafi verið upp félag með mjög flatan strúktúr. „Við vinnum í teymum fyrir viðskiptavini. Þau eru mjög sjálfstæð og hafa mikið umboð til að vinna fyrir hönd fyrirtækisins fyrir viðskiptavinina. Við leggjum mikla áherslu á lærdómsmenningu og nýja tækni eins og skýjaþjónustu og gervigreind.“

Hann segir að Prógramm hafi mikla reynslu af flóknum heilbrigðistengdum verkefnum og náinni samvinnu með stofnunum eins og Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun. Bæði Prógramm og Andes hafa síðan unnið fyrir Stafrænt Ísland að sögn Hlöðvers. „Andes hefur haldið utan um innviðina í Stafrænu Íslandi en Prógramm fékk eitt af flóknari verkefnunum; rafrænar þinglýsingar.“

Hlöðver segir að mjög vel gangi að hrista fyrirtækin saman, ánægja sé mikil hjá starfsmönnum og verkefni næg. Þá segir hann að nýja fyrirtækið, Miracle, sem er sérhæft í gagnagrunnstækni og viðskiptagreiningu, muni passa vel inn í hópinn. „Eigendur félagsins tóku málatilbúnaði okkar vel og hafa trú á verkefninu. Stofnendur og eigendur Miracle samþykktu að selja okkur félagið og fjárfestu einnig sjálfir í móðurfélaginu.“

Forstjórinn segir að lögð sé áhersla á það hjá APRÓ að velja réttu verkfærin fyrir hvert verkefni eins og hann orðar það. Útgangspunkturinn sé svo ávallt viðskiptaleg markmið viðskiptavina. „Fólk lítur oft á ný kerfi sem eins konar töfralausn. Það næst þó ekki nema skilningur sé á viðskiptalegum hvötum viðskiptavinar og hvernig árangur er mældur m.a. Oft er hægt að leysa mál án nokkurrar forritunar og það eru oft bestu verkefnin.“

Apró-hraðallinn

Þó að Apró sé fyrst og fremst þjónustufyrirtæki þróar það einnig eigin hugbúnað í skýi Amazon, AWS, sem kallaður er Apró-hraðallinn. Hann á að hjálpa fyrirtækjum að hreyfa sig hraðar og búa til meira virði fyrir viðskiptin eins og Hlöðver útskýrir.

Gervigreind er ofarlega á baugi hjá APRÓ um þessar mundir. Félagið vill hjálpa viðskiptavinum að vinna í þeirri tækni með öruggum hætti og uppfylla allar kröfur um hlítni og staðla. „Okkar fókus er á praktísk verkefni sem skila skýru virði. Eins og er með flestar stærri tæknibreytingar þá teljum við að áhrif gervigreindar séu vanmetin til lengri tíma en ofmetin til skemmri tíma.“

Líftími fjárfestinga hjá Leitar er sjö ár með möguleika á framlengingu. Hlöðver segir að fyrsta markmið Apró verði að ná samstarfi við góðan samstarfsaðila og verða hluti af enn stærra fyrirtæki, líklega erlendu, og bjóða vörur og þjónustu á alþjóðamarkaði. „Aðrir möguleikar væru að selja fyrirtækið til sjóða eða skrá það á markað. Við höldum öllum möguleikum opnum til lengri tíma.“

Að lokum segir Hlöðver að mikill meðbyr sé með fyrirtækinu og nálgun þess. „Við komum úr nýrri átt og viljum vera valkostur á móti öðrum stórum félögum á markaðnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka