Tveir nýir stjórnendur taka sæti í framkvæmdastjórn fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar, þeir Guðmundur H. Björnsson sem mun leiða nýtt svið Upplifunar viðskiptavina og Gunnar Sigurjónsson sem mun taka við Upplýsingatækni af Gunnari Guðjónssyni. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Gunnar Guðjónsson mun stíga inn í nýtt hlutverk framkvæmdastjóra Sölu og þjónustu. Þeir munu hefja störf á næstu mánuðum. Þá mun Sigurbjörn Eiríksson taka sæti í framkvæmdastjórn en hann hefur veitt Innviðum Sýnar forstöðu síðustu ár.
Haft er eftir Herdísi Dröfn Fjeldsted, forstjóra Sýnar í fréttatilkynningu að nýju stjórnendurnir munu koma með dýrmæta reynslu og þekkingu sem komi til með að styrkja stjórnendateymi Sýnar.
„Við erum sérstaklega ánægð að fá Guðmund H. Björnsson og Gunnar Sigurjónsson til liðs við okkur í þau verkefni sem framundan eru. Að sama skapi er reglulega ánægjulegt að fá reynslumikla menn innan félagsins, þá Gunnar Guðjónsson og Sigurbjörn Eiríksson í ný hlutverk þar sem kraftar þeirra og þekking munu njóta sín enn betur. Skipuritið endurspeglar vel áherslur félagsins í þeim verkefnum sem framundan eru og mun hjálpa okkur að ná enn betri árangri í þjónustu við viðskiptavini og styrkja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar,“ er haft eftir Herdísi.
Í kjölfar breytinganna er skipulag félagsins sem hér segir:
Lögfræði og regluvarsla – Páll Ásgrímsson
Páll Ásgrímsson er aðallögfræðingur félagsins en undir hann heyra einnig gæða- og öryggismál, aðfangastýring og verkefnastofa. Páll kom til starfa hjá félaginu árið 2014 en áður var hann einn af eigendum lögfræðistofunnar Juris. Hann er reynslumikill lögmaður á sviði félagaréttar, auk þess að hafa sérhæft sig á sviði fjarskipta-, upplýsingatækni- og samkeppnisréttar. Páll er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í Evrópurétti frá London School of Economics.
Fjármál – Eðvald Ingi Gíslason
Undir Fjármálasvið Sýnar falla uppgjör og reikningsskil, hagdeild, reikningagerð og tekjueftirlit, ásamt gögnum og greiningum. Sviðið sér um alla fjármálaumsýslu, áætlanir, greiningar og viðskiptagreind og gegnir lykilhlutverki í að tryggja arðsemi og vöxt Sýnar. Eðvald hefur starfað hjá félaginu frá því í vor og kom frá Kviku banka. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í verkfræði með áherslu á hagnýta stærðfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) í Danmörku árið 2010 en lauk B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005
Mannauður – Valdís Arnórsdóttir
Mannauður vinnur að heilbrigðri fyrirtækjamenningu, faglegri ráðgjöf til stjórnenda og starfsmanna og tryggir virðisaukandi mannauðsstjórnun innan félagsins. Auk mannauðsþjónustu heyrir eignaumsýsla undir Mannauð. Þá er sjálfbærni nýr málaflokkur innan sviðsins. Valdís Arnórsdóttir leiðir Mannauð en hún hefur áratuga stjórnunarreynslu í mannauðsog rekstrarmálum. Valdís hóf störf hjá Sýn í byrjun árs 2024 en þaðan kom hún frá Marel þar sem hún starfaði í 12 ár í ýmsum stjórnendastörfum í alþjóða mannauðsteymi félagsins. Valdís er með Cand. oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Miðlar og efnisveitur – Unnið að ráðningu framkvæmdastjóra Öll starfsemi miðla Sýnar hefur verið sameinuð að nýju og kallast
Miðlar & efnisveitur
Sviðið er mikilvægur hlekkur í rekstri Sýnar en þar fer fram öll framleiðsla á dagskrárefni hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi. Rekstur fréttastofu heyrir einnig undir Miðla & efnisveitur en unnið er eftir skýrri ritstjórnarstefnu og heyrir ritstjóri frétta beint undir forstjóra.
Upplifun viðskiptavina – Guðmundur H. Björnsson
Guðmundur mun stýra nýju sviði Upplifunar viðskiptavina sem ætlað er að auka ánægju og tryggja jákvæða upplifun viðskiptavina í öllum þáttum starfseminnar. Undir sviðið heyra markaðs- og samskiptamál, vörustýring og verðlagning. Guðmundur er með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur m.a. leitt teymi í markaðssamskiptum, vöru- og verðstýringu sem og viðskiptaþróun. Guðmundur hefur starfað hjá þjónustufyrirtækjum á borð við Símann, 365 og VÍS. Síðastliðin ár hefur Guðmundur starfað sem framkvæmdastjóri Heilsu, dótturfyrirtækis Lyfju. Þar á undan starfaði hann sem framkvæmdastjóri stafrænna umbreytinga og markaðsmála hjá Lyfju. Guðmundur er með B.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskóla Íslands.
„Ég er mjög spenntur að hefja störf hjá Sýn og taka þátt í þróun félagsins á þessum fjölbreytta og lifandi markaði. Hjá Sýn starfar hæfileikaríkt starfsfólk og ég hlakka til að starfa með því og leggja mitt af mörkum í þeirri vegferð sem framundan er."
Sala og þjónusta – Gunnar Guðjónsson
Í nýju stjórnskipulagi hafa allar tekjueiningar félagsins verið sameinaðar á einu sviði, að undanskilinni heildsölu. Undir Sölu & þjónustu fellur öll sala og þjónusta, hvort sem er fyrir einstaklinga (B2C) eða fyrirtæki (B2B). Þar að auki færist auglýsingasala undir sama svið. Með þessum hætti tryggjum við skýran fókus á bæði sölu og þjónustu við viðskiptavini og aukum samvinnu milli sölueininga. Gunnar er einn af stofnendum Endor og nú síðast framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Sýnar. Gunnar hefur viðamikla reynslu í upplýsingatækni, rekstri og þjónustu. Hann var forstjóri Opinna Kerfa frá árinu 2008 til ársins 2015 og þar áður starfaði hann í mismunandi stjórnunarstörfum innan þess félags frá árinu 2000. Gunnar er rekstrarhagfræðingur að mennt með meistaragráðu frá Strathclyde University í Skotlandi.
Innviðir – Sigurbjörn Eiríksson
Innviðir bera ábyrgð á uppbyggingu og rekstri fjarskiptainnviða Sýnar. Helstu fjarskiptakerfi sem eru í rekstri eru farnets– og fastlínukjarnar auk hliðar- og stoðkerfa fyrir farsíma- og fastlínuþjónustur. Sigurbjörn Eiríksson hefur starfað hjá félaginu í hátt í tuttugu ár, nú síðast sem forstöðumaður innviða Sýnar. Hann býr yfir djúpri þekkingu á félaginu, rekstri fjarskiptakerfa og hefur verið lykilmaður í þeim umbreytingum sem hafa átt sér stað á fjarskiptahlið félagsins síðustu ár. Má þar meðal annars nefna sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans og sölu á farnetsinnviðum.
Upplýsingatækni – Gunnar Sigurjónsson
Gunnar kemur til Sýnar frá Rapyd/Valitor þar sem hann hefur fengist við margvísleg störf á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðarþróunar síðustu ellefu ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri vöruþróunar- og rekstrarsviðs. Á árunum 2009-2013 starfaði hann sem ráðgjafi á upplýsingatæknisviði Advania, en þar á undan hjá Kögun sem hugbúnaðarsérfræðingur frá árinu 2001. Gunnar lauk MSc. í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og BSc. í rafmagns- og tölvunarfræði árið 2001 frá sama skóla.
„Ég hlakka til að hefja störf hjá Sýn og að takast á við nýjar áskoranir með frábæru teymi. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og bíð spenntur eftir að kynnast starfseminni betur og að takast á við verkefni í takt við stefnu félagsins. Sýn er öflugt félag sem á heilmikið inni og mun ég leggja mitt af mörkum að efla og styrkja það enn frekar.“