Sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken eflir markaðssókn sína í Miðausturlöndum og Tyrklandi og hefur samið við dreifingarfyrirtækið Hisa Hisa, sem er leiðandi í dreifingu á lyfjum og lækningatækjum í þessum löndum.
„Samstarfið við Hisa Hisa gerir Unbroken kleift að nýta víðtæka þekkingu þess í þessum löndum, sem og sterkt sölunet og gott orðspor á markaði,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken í fréttatilkynningu.
Þar kemur fram að markaðurinn í þessum löndum sé vaxandi eins og víðast hvar um heim þegar komi að heilsueflandi næringu.
Höfuðstöðvar Hisa Hisa eru í Dubaí og svæðisskrifstofur í Istanbúl og Kaíró en í tilkynningunni segir að Hisa Hisa sé eitt stærsta og virtasta dreifingarfyrirtæki á sínu sviði á svæðinu. „Samstarfið styrkir fótfestu Unbroken í þessum heimshluta og á ört vaxandi markaði með heilsueflandi vörur."
Eftirspurn neytenda eftir vörum sem bæta heilsu og líðan hefur aukist verulega í þessum heimshluta samkvæmt fréttatilkynningunni.
Þar, eins og víðast í vestrænum löndum, aukist útgjöld til heilbrigðisþjónustu sem kalla á lífsstílsbreytingar og vörur eins og Unbroken.
Unbroken er fæðubótarefni þar sem líkaminn fær 100% vatnsrofið prótein úr laxi og eyðir litlum sem engum tíma og orku í meltingu. Það nýtist því líkamanum strax í uppbyggingu vöðva, við að styrkja ónæmiskerfið og hámarka vellíðan eins og tíundað er í tilkynningunni.
Steinar segir að varan hafi þegar fengið jákvæð viðbrögð neytenda í Mið-Austurlöndum. „Vaxandi hópur vill gjarnan næringu sem byggir á sjávarfangi og við metum að Unbroken eigi þar góða möguleika. Við erum spennt að sjá afrakstur samstarfs við svo virtan og rótgróinn dreifingaraðila. Þetta er stefnumótandi ákvörðun fyrir Unbroken sem styrkir okkur í Miðausturlöndum og Tyrklandi. Unbroken er vel í stakk búið að þjóna þeim neytendum sem sækjast eftir hágæða vörum studdum vísindalegum niðurstöðum.“