Óvissan farin að hafa afleiðingar

Þrjú minni skemmtiferðaskip í höfn á Húsavík en óvissa er …
Þrjú minni skemmtiferðaskip í höfn á Húsavík en óvissa er um siglingar slíkra skipa á næsta ári vegna óútfærðs afnáms ívilnana. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Breska fyrirtækið Swan Hellenic, sem gerir út skemmtiferðaskip víða um heim, hefur ákveðið að hætta við að sigla til Íslands næstu tvö ár.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins við frumvarp fjármálaráðherra sem mælir fyrir nýju innviðagjaldi á farþega stærri skemmtiferðaskipa samhliða niðurfellingu virðisauka- og tollívilnana á þau minni um áramótin.

Fram kemur í umsögninni að Ísland sé mjög samkeppnishæfur áfangastaður fyrir bæði stór og minni skemmtiferðaskip. Til að minni skipin nái árangri í krefjandi samkeppnisumhverfi verði þau að setja saman einstakar ferðaáætlanir sem henti smærri sveitarfélögunum, sem búa ekki yfir innviðum til að taka móti stórum skipunum.

Vegna ákvörðunar ráðherra um að auka álögur á skemmtiferðaskipin frá næstu áramótum telur félagið sig hafa tvo kosti í stöðunni:

Annars vegar að hækka verð á ferðum til Íslands án þess að hafa neinn fyrirsjáanleika í verðlagningu sem vegur á móti kostnaði. Hins vegar að skipin eigi viðkomu í Færeyjum sem hefði þá þýðingu að siglingartíminn myndi lengjast úr átta í ellefu nætur og um leið hækka fargjöldin um 37%.

Félagið ákvað því að fella niður ferðir til Íslands árin 2025 og 2026.

Framkvæmdum frestað

Óvissa vegna lagabreytinganna sem snúa að minni skipum er þegar farin að hafa áhrif á landsbyggðinni. Þannig hafa hafnaryfirvöld slegið á frest að rafvæða Torfunefsbryggju, sem er beint fyrir neðan miðbæinn á Akureyri. Markmiðið var að taka á móti minni skemmtiferðaskipum og segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri Akureyrarbæjar vinnuna hafa staðið yfir síðastliðin fjögur ár.

„Við höfum sett uppbygginguna á ís í bili, vegna þess að það eru miklir óvissutímar núna varðandi komur skemmtiferðaskipa. Skipaútgerðir hafa síðustu daga verið að senda afbókanir fyrir næsta ár,“ segir Pétur í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir það vera óábyrgt að leggja í hundraða milljóna króna fjárfestingu í ljósi stöðunnar.

„Þetta eru töluverðir fjármunir. Bara tengibúnaðurinn kostar í kringum 130 milljónir króna og þá eru ekki meðtaldar lagnirnar út í bryggjuna. Við erum að tala um heildarfjárfestingu upp á 250 milljónir króna sem verið er að fresta á meðan við fylgjumst með framvindu mála,“ segir Pétur.

Spurður nánar um umfang afbókana segir hann að útgerðir skipana séu flestar að bíða eftir endanlegri niðurstöðu.

„Hins vegar sá ég í gær afbókanir hjá einu skipafélagi, sem gerir út lítil skemmtiferðaskip, vegna þessarar fyrirhuguðu skattheimtu. Umrætt félag segist ætla að sjá til hvort það verði ferðir árið 2026, en það er alveg ljóst að menn hafa verulegar áhyggjur af þessu,“ segir Pétur.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri Akureyrarhafnar segir að núna séu miklir óvissu …
Pétur Ólafsson hafnarstjóri Akureyrarhafnar segir að núna séu miklir óvissu tímar um komur skemmtiferðaskipa. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka