Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir vísbendingar um samdrátt í byggingariðnaði. Fyrirhugaðar stórframkvæmdir við nýjan Landspítala breyti ekki stóru myndinni hvað þetta varðar.
Tilefnið er samtal við Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóra framkvæmda hjá Nýjum Landspítala, í Morgunblaðinu í síðustu viku.
Áætlaði Ásbjörn við það tilefni að fyrirhuguð uppbygging við nýja spítalann yrði stærsta framkvæmd sinnar tegundar á Íslandi en um 600-700 manns muni að hámarki starfa við verkefnið.
Innanhússfrágangur við meðferðarkjarnann, stærsta mannvirkið, er að hefjast en samanlagt eru byggingar í smíðum 120 þúsund fermetrar, eða um tvöfaldur grunnflötur Kringlunnar. Auk meðferðarkjarna er verið að reisa bílasa bílastæðaog tæknihús, rannsóknahús og viðbyggingu við Læknagarð. Ingólfur segir aðspurður að þótt verkefnið sé vissulega umfangsmikið á íslenskan mælikvarða beri að horfa til þess að um 20 þúsund manns starfi í byggingargeiranum.
„Viðbótin í fjölda starfandi við byggingu Landspítalans verður 300 til 400 manns. Nú eru um 300 starfandi við verkefnið og verða 600 til 700 þegar mest lætur. Þessi fjölgun samsvarar um 1,5-2% af heildarfjölda starfandi í byggingariðnaði um þessar mundir. Verktakar sem koma að verkefninu hafa gert áætlanir um þetta. Það verður ekki um hreina viðbót að ræða hjá þeim þar sem nýttir verða starfsmenn sem eru að ljúka öðrum verkefnum. Þá er einnig ólíklegt að þetta verði hrein viðbót við fjölda starfandi í greininni,“ segir Ingólfur.
„Við sjáum vísbendingar um samdrátt í uppbyggingu íbúða, sérstaklega á fyrstu framvindustigum, og sjáum það líka í verkefnastöðu hjá arkitektum og verkfræðingum, sem eru þeir fremstu í ferlinu. Vinnuafl er því að losna til annarra verka innan greinarinnar. Uppbyggingin við nýja Landspítalann kemur því kannski á ágætum tíma hvað það varðar. Við erum ekki á hátindi vaxtarins eins og fyrir einu til tveimur árum, þegar vöxturinn var hvað mestur. Innviðaframkvæmdir vega vissulega þungt í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Veigamesti þátturinn er hins vegar uppbygging á atvinnuhúsnæði,“ segir Ingólfur og bendir á að vísbendingar séu um að kólnunin í hagkerfinu sé farin að hafa áhrif á þá uppbyggingu.
Máli sínu til stuðnings bendir Ingólfur á að veltan í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hafi í fyrra verið rétt um 200 milljarðar, um 125 milljarðar í uppbyggingu opinberra innviða og um 246 milljarðar í uppbyggingu mannvirkja atvinnuveganna, sem vegi því þyngst. Dæmi um hið síðastnefnda sé uppbygging á fiskeldi og hótelum.
Við þetta bætist síðan viðhaldsverkefni en í heild hafi velta greinarinnar verið ríflega 600 milljarðar króna í fyrra. Fyrsta nýbyggingin sem verður tekin í notkun á spítalasvæðinu er 20 þúsund fermetra bílastæðahús sem áformað er að taka í notkun á fyrri hluta næsta árs. Með því kemur nýtt bílastæðahús á markaðinn en þar verða 520 stæði. Þau eru ætluð starfsmönnum spítalans en verða öðrum opin gegn greiðslu.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.