Greiða 20 milljarða í sértæka skatta og gjöld

Íslenskum bönkum eru settar þrengri skorður en bönkum annars staðar …
Íslenskum bönkum eru settar þrengri skorður en bönkum annars staðar í Evrópu. Samsett mynd

Í nýbirtri álagningu skattsins á lögaðila vegna rekstrar síðasta árs kemur fram að íslensk fjármálafyrirtæki greiddu í fyrra um 17 milljarða króna í sértæka skatta. Um er að ræða þrenns konar skatta sem önnur fyrirtæki þurfa ekki að greiða og reiknast skattarnir af launagreiðslum, skuldum og hagnaði fjármálafyrirtækjanna. Þá þarf fjármálageirinn einnig að greiða sérstakt gjald fyrir rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara og saman nema þessir sértæku skattar og gjöld u.þ.b. 20 milljörðum króna.

Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF), minnir á að við þessa upphæð bætist þeir almennu skattar sem bankarnir greiða af hagnaði og launum og að allt skattspor fjármálageirans hlaupi á tugum milljarða. Segir Heiðrún að óvíða séu sértækir skattar á fjármálafyrirtæki jafnháir og jafnmargir og á Íslandi og gangi ekkert hinna Norðurlandaríkjanna jafnlangt í að krefja banka um svo háa sértæka skatta. Finnland leggi t.d. ekki á neina sértæka bankaskatta og í Svíþjóð sé aðeins einn sértækur skattur á banka sem sé jafnframt mun lægri en hér á landi. „Þessi sértæka skattlagning var almennt hugsuð sem tímabundin og var einum skattinum ætlað að bæta það tjón sem ríkissjóður varð fyrir í bankahruninu, en það hefur verið reiknað út að með greiðslunni 2016 hafi tjónið verið að fullu bætt,“ útskýrir hún.

Helmingur reglugerða hefur fengið gullhúðun

Til viðbótar við sértæku skattana þurfa íslenskir bankar líka að bera kostnað af hærri bindiskyldu en hjá öðrum löndum. Fyrir rösku ári hækkaði Seðlabankinn svokallaða óvaxtaberandi bindiskyldu úr 1%, líkt og tíðkast á evrusvæðinu, fyrst upp í 2% og svo í apríl upp í 3%. Segir SFF að aðilar á borð við AGS líti á bindiskyldu sem ígildi skattlagningar á fjármálastarfsemi og hefur Seðlabankinn sjálfur áætlað að hækkun bindiskyldunnar úr 1% í 3% kosti íslensku viðskiptabankana um 5,5 milljarða króna árlega ef miðað er við núverandi vaxtastig.

Ofan á þetta allt saman bætist síðan mikil reglugerðabyrði en Heiðrún nefnir að í nýlegri meistararitgerð hafi komið í ljós að um helmingur þeirra Evrópureglna sem tengjast íslenska fjármálageiranum hafi fengið svokallaða „gullhúðun“, þ.e. að við innleiðingu þeirra var gengið mun lengra en þurfti. „Í stað þess að nýta tiltæk úrræði til að fá undanþágur og beita vægari kröfum hefur sú leið of oft verið farin að gera strangari kröfur til íslenskra fjármálafyrirtækja en gert er annars staðar í Evrópu,“ útskýrir Heiðrún og lætur það fljóta með að evrópskum bönkum sem búa að mun fjölmennara starfsliði en þeir íslensku þyki mörgum nóg um reglufarganið. „Það er í raun farið að þykja skapa áhættu fyrir evrópsk fjármálafyrirtæki hversu flókið regluverkið er orðið í álfunni, og vandamálið því ekki einskorðað við Ísland. Hvert tilvik fyrir sig getur virst frekar léttvægt og sakleysislegt en áhrifin safnast upp þegar helmingur regluverksins hefur verið gullhúðaður og flækir innleiðingu og eftirfylgni reglnanna enn frekar.“

Skert samkeppnishæfni í alþjóðlegu umhverfi

Heiðrún segir ekki hægt að líta fram hjá því að hærri álögur, hærri bindiskylda og gullhúðun regluverksins veiki samkeppnishæfni íslenska bankageirans og skerði getu bankanna til að t.d. fjárfesta í nýjum leiðum til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör. „Hafa ber í huga að bankarnir eiga í mikilli samkeppni við aðra lánveitendur s.s. á íbúðamarkaði þar sem lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir og eins keppa þeir við erlenda aðila í stærri lánveitingum til fyrirtækja. Við sjáum æ fleiri tilvik þar sem stórir aðilar í atvinnulífinu leita til erlendra fjármálafyrirtækja og er það leitt ef sértæku skattarnir og gjöldin eiga þátt í að færa þessi viðskipti úr landinu og út fyrir íslenska hagkerfið.“

Heiðrún bendir á að leiða megi líkur að því að skatta- og gjaldaumhverfi íslenska fjármálageirans eigi þátt í að minnka áhuga erlendra aðila á að sækja inn á íslenska markaðinn og þannig efla samkeppni og þjónustuframboð enn frekar – neytendum til hagsbóta. Nefnir hún í því sambandi hve treglega gekk á sínum tíma að finna erlenda banka sem hefðu áhuga á að koma inn í eigendahóp Íslandsbanka. „Þá er óhjákvæmilegt að hærri álögur og skattar á íslenska fjármálageirann hafi keðjuverkandi áhrif á allt atvinnulífið og skekki stöðu íslenskra fyrirtækja og hagkerfisins almennt til lengri tíma litið en líkt og kom fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 2018, eru sértækir skattar hluti af svokölluðu „Íslandsálagi“ sem skýrir að hluta hvers vegna vaxtamunur er meiri á Íslandi en í löndunum sem við berum okkur saman við.“

Þrengir að vaxtakjörum og verðmati bankanna

Hagfræðingar eru almennt á þeirri skoðun að fyrirtæki og viðskiptavinir deili með sér kostnaðinum af sköttum og gjöldum og mætti reikna með að ef bindiskyldan yrði lækkuð til samræmis við það sem tíðkast í Evrópu, sértæku skattarnir lækkaðir eða afnumdir og gullhúðunin tekin af regluverkinu myndi það veita bönkunum aukið svigrúm til að bæði bjóða viðskiptavinum sínum hagstæðari vexti, greiða eigendum sínum meiri arð eða fjárfesta meira í innviðum til að styrkja bankana og þjónustu þeirra.

Heiðrún segir að bankarnir væru vísir til að bregðast við hver með sínum hætti, eftir stefnu hvers fyrirtækis fyrir sig og því hvað stjórnendur þeirra setja á oddinn í efnahags- og samkeppnisumhverfinu á hverjum tíma. „En að því leyti sem bætt rekstrarumhverfi myndi leiða til hærri arðgreiðslna er gott að minna á að bankarnir eru að stærstum hluta í eigu ríkisins annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar. Því rennur afkoman af rekstri bankanna í dag að megninu til – bæði beint og óbeint – til samneyslunnar. Þá hefur afkoma banka einnig áhrif á verðgildi þeirra sem vert er að hafa í huga ef ætlunin er að halda áfram sölu á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka