Sú breyting verður gerð á Dow Jones-vísitölunni í þessari viku að Intel verður skipt út fyrir örflöguframleiðandann Nvidia. Liðinn er aldarfjórðungur síðan Intel bættist við þann hóp 30 úrvalsfyrirtækja sem Dow Jones-vísitalan mælir en félagið hefur átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum á meðan Nvidia hefur siglt með himinskautum þökk sé sterkri stöðu félagsins í framleiðslu vélbúnaðar fyrir gervigreindarbyltinguna.
Það sem af er þessu ári hefur hlutabréfaverð Intel lækkað um 54% og er það verri frammistaða en hjá nokkru öðru fyrirtæki í Dow Jones-vísitölunni en á sama tíma hefur hlutabréfaverð Nvidia hækkað um 181% og er félagið núna það næstverðmætasta í heiminum. Hafa markaðsgreinendur spáð því að Intel verði rekið með tapi á þessu ári og væri það í fyrsta skipti síðan 1986 sem félagið skilar ekki hagnaði. ai@mbl.is