Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar er útlit fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði aðeins 0,1%. Er það talsvert minni hagvöxtur en Hagstofan hafði spáð fyrr á árinu, en í júní spáði Hagstofan 0,9% hagvexti á árinu og í apríl var gert ráð fyrir 1,5% hagvexti.
Meðal ástæðna fyrir þessari stöðnun er meðal annars loðnubrestur. Þá kemur fram í spánni núna að verg landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,9% á fyrri hluta ársins. Hins vegar er reiknað með viðsnúningi á seinni hluta ársins í utanríkisviðskiptum og hóflegum vexti í einkaneyslu.
Samkvæmt spánni er svo gert ráð fyrir að hagvöxtur taki aftur við sér og verði 2,4% á næsta ári og 2,7% bæði árin 2026 og 2027.
Í þjóðhagsspánni kemur fram að horfur séu á að verðbólga hjaðni áfram á næstu árum m.a. vegna þess að hagkerfið hefur kólnað. Þá sé aðhald peningastefnunnar enn mikið. Krónan hefur styrkst á síðustu mánuðum og verðbólga erlendis hjaðan, ásamt því sem olíuverð á heimsmörkuðum hefur lækkað. Einnig er bent á að hóflegir kjarasamningar til lengri tíma styðji við hjöðnun verðbólgu.
Spáir Hagstofan því að verðbólga verði að meðaltali 3,8% á næsta ári og 2,7% árið 2026, en að atvinnuleysi aukist samhliða hægari efnahagsumsvifum og verði að meðaltali 3,7% í ár og 4,1% á næsta ári.