Hlutabréf hækkuðu á Wall Street snemma morguns eftir að bandarískir kjósendur tryggðu Donald Trump annað kjörtímabil í Hvíta húsinu og Repúblikönum meirihluta á öldungadeildarþingi Bandaríkjanna.
Helstu vísitölur hækkuðu á methraða sem kann að endurspegla væntingar um vaxtarmiðaðar stefnubreytingar undir stjórn Trump.
Meðal þeirra sem hafa hagnast verulega á kosningasigrinum eru Trump sjálfur og stuðningsmaður hans auðkýfingurinn Elon Musk, en hlutabréfaverð fyrirtækja þeirra, Trump Media og Tesla, hækkuðu annars vegar um 12,3% og hins vegar um 11%.
Aðeins 45 mínútum eftir að markaðurinn opnaði í morgun hafði Dow Jones-vísitalan hækkað um 3,1 prósent og var í 43,538,34. S&P 500-vísitalan hækkaði um 1,8 prósent eða í 5,888,89 á meðan Nasdaq-vísitalan hækkaði um 2,1 prósent í 18,819,03.
Niðurstöður kosninganna þýða að Trump verður með nægt umboð á þingi til að koma sínum helstu stefnumálum og áherslum í lög.
Hækkanirnar gefa til kynna að væntingar fjárfesta til skattalækkana og tilslakana á regluverki séu meiri en áhyggjur þeirra af tollhækkunum sem þeim kunna einnig að fylgja.
Þá kann afdráttarlaus sigur Trump einnig að hafa veri'ð markaðinum í hag enda er fátt verra fyrir hlutabréfasölu en óstöðugleiki, langvarandi pólitísk óvissa, yfirvofandi samdráttur hagkerfisins og jafnvel útbreiðsla óstöðugleika til nærliggjandi landa og bandamanna Bandaríkjanna.