Um miðjan október gerði eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrirvaralausa húsleit hjá Skel fjárfestingarfélagi, á grundvelli ákvörðunar ESA um athugun á starfsemi Lyfjavals, dótturfélags Heimkaupa, sem er í 81% eigu Skeljar.
Þetta var í fyrsta sinn sem slík aðgerð var framkvæmd á Íslandi en sambærilegar aðgerðir höfðu farið fram í Noregi. Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur Skel áætlað hlutdeild Lyfjavals á lyfjamarkaði í kringum 10%. Eigin innflutningur Lyfjavals hefur verið hverfandi og snert aðallega á eftirfarandi vöruflokkum: covid-prófum, strimlum fyrir sykursjúka og rafhlöðum fyrir heyrnartæki. Lyfjaval hefur ekki sinnt útflutningi.
Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skeljar segir að sig gruni að margir í atvinnulífinu hafi orðið hissa á að eftir 30 ár í EES komi í ljós að á Íslandi sé tvöfalt samkeppniseftirlit. Annars vegar það sem lúti íslenskum lögum, og fyrirtækin njóti þá verndar hjá innlendum dómstólum, og hins vegar alþjóðlegt eftirlitskerfi.
„Í seinna kerfinu geta íslensk fyrirtæki ekki leitað réttar síns með sambærilegum hætti. Ég reikna auk þess með að margir verði hissa er þeir átta sig á því að alþjóðlega eftirlitsstofnunin hefur afskipti af viðskiptum með fasteign á Íslandi hjá félagi í smásölu lyfja sem er með 8-10% markaðshlutdeild og stundar nær engin milliríkjaviðskipti. Ég er sannfærður um að þessi málatilbúnaður er tilefnislaus,“ segir Ásgeir og bætir við að nú sé málið í höndum ESA og hann sé viss um að þetta hafi ekki frekari áhrif á starfsemi Lyfjavals.
Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út í dag.