SFF tekur undir áhyggjur Seðlabankans

Heiðrún Jónsdóttir, formaður Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Heiðrún Jónsdóttir, formaður Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

​Forstjórar fjármálaeftirlita á Norðurlöndum sendu nýlega sameiginlegt bréf til fimm evrópskra eftirlitsstofnana þar sem kallað er eftir að þær dragi úr og einfaldi reglugerðafargan á neytendur og fjárfesta og á fjármálamarkaði.

Fram kemur í bréfinu að það verði að einfalda reglurnar svo þær hafi sem minnst áhrif á neytendur og fjárfesta.

Forstjórarnir hvetja evrópska eftirlitsaðila til að taka höndum saman um að minnka reglubyrði á fyrirtæki og leitast fremur við að styðja við fjármálamarkaði innan Evrópu.

Flókið regluverk geti verið áhættuþáttur

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, segir samtökin taka undir þær áhyggjur sem fram koma í bréfinu. 

„Við tökum heilshugar undir áhyggjur Seðlabankans og systurstofnana bankans á hinum Norðurlöndunum af umfangi og flækjustigi evrópska regluverksins um fjármálastarfsemi og styðjum eindregið að ráðist verði í einföldun á því. Við hjá SFF höfum ítrekað bent á að flóknar reglur leiði ekki endilega af sér meira öryggi heldur sé fremur til þess fallnar að verða sérstakur áhættuþáttur. Það hefur allt í senn áhrif á eftirlitsaðila, fjármálafyrirtæki og viðskiptavini þeirra,“ segir Heiðrún.

Á fundi samtakanna með Evrópsku bankasamtökunum hafi sömu áhyggjur verið viðraðar.

„Bent var á að veruleg hætta sé á að ofregluvæðing komi niður á samkeppnishæfni og lífskjörum í Evrópu. Kollegar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa bent á að núverandi löggjöf telji um 3.500 blaðsíður en miðað við áform um frekari reglusetningu stefni í að það aukist í um 6.000 síður,“ segir hún.

Framkvæmi kostnaðarmat

Þá taki þau undir ákall norrænu fjármálaeftirlitsstofnanna um að framkvæmt verði vandað og áreiðanlegt kostnaðarmat við laga- eða reglusetningu á vettvangi ESB.

„Raunar á hið sama einnig við á Íslandi. Til að mynda þegar verið er að innleiða EES-tilskipanir með íþyngjandi séríslenskum ákvæðum, svokallaðri gullhúðun eða blýhúðun, sem of oft er gert án fullnægjandi kostnaðarmats. Í þessu samhengi má minna á að gullhúðun hefur verið beitt í um helmingi innleiðinga tengdri fjármálaþjónustu samkvæmt nýlegri meistararitgerð, en slíkt eykur flækjustigið í löggjöfinni enn frekar.

Engu að síður hafa mörg skynsamleg skref verið tekin á undanförnum árum í tengslum við laga- og regluverk á fjármálamarkaði, enda er skýrt og skilvirkt regluverk nauðsynlegur hlutur af skilvirkri fjármálastarfsemi,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK