AtNorth stækkar gagnaver

Gagnaver AtNorth.
Gagnaver AtNorth. Ljósmynd/Aðsend

Hafin er stækkun tveggja gagnavera atNorth á Íslandi í Reykjanesbæ og á Akureyri. Stækkunin kemur til vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu gagnavera atNorth frá bæði alþjóðlegum og innlendum viðskiptavinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur að heildarfjárfesting AtNorth vegna stækkunarinnar nemi 41,2 milljörðum króna, en við bætist fjárfesting viðskiptavina fyrirtækisins í tölvubúnaði sem nemur nálægt 300 milljörðum króna.

Um sé að ræða umfangsmestu stækkun sem íslenskt gagnaver hefur ráðist og innifelur hún umtalsvart magn af hátæknibúnaði. Leigja þurfti sérhæft flutningaskip til að flytja hluta búnaðarins og kallaður var til stærsti krani landsins til að hífa búnaðinn inn á lóð gagnaversins.

Í tilkynningunni segir að hönnun gagnavera atNorth miði að þörfum fyrirtækja sem vinni með mikið magn gagna og þurfi aðgang að búnaði sem ræður við þunga tölvuvinnslu og útreikninga, og nýtur þeirra kosta sem staðsetningin býður upp á, með aðgangi að hreinni orku og sjálfbærri nálgun AtNorth.

Auk gagnaveranna í Reykjanesbæ og á Akureyri rekur AtNorth gagnaver í Hafnarfirði, en hjá fyrirtækinu starfa yfir 160 manns, fyrir utan verktaka. Fyrirtækið leggur sig fram við að nýta þjónustu verktaka og annarra á svæði hvers gagnavers fyrir sig, jafnt hér heima sem erlendis.

Samstarf við Hringvarma um endurheimt varma

Þá kemur fram að AtNorth hafi gengið til samstarfs við Hringvarma um heimt glatvarma frá gagnaverunum til að nota í matvælaframleiðslu. Hringvarmi komi til með að setja upp frumgerð búnaðar síns í gagnaverinu á Akureyri og noti hitann frá gagnaverinu til að rækta grænspírur (e. microgreens) í samstarfi við Rækta Microfarm.

Árni Björnsson, stöðvarstjóri gagnaversins á Akureyri ásamt Alexöndru Leeper og …
Árni Björnsson, stöðvarstjóri gagnaversins á Akureyri ásamt Alexöndru Leeper og Justine Vanhalst meðstofnendum Hringvarma. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur er mikil ánægja að vera með í vistkerfi hátæknigagnavera atNorth. Markmið samstarfsins er að efla íslenskan landbúnað og draga úr þörf fyrir innfluttar vörur um leið og við leggjum lóð á vogarskál hringrásarhagkerfisins á Íslandi,“ er haft eftir Justine Vanhalst, meðstofnanda Hringvarma.

„Með stækkun gagnaveranna mætum við aukinni eftirspurn eftir þjónustu AtNorth bæði frá erlendum of innlendum viðskiptavinum, en stækkunin er í samræmi við sjálfbæra vaxtarstefnu atNorth og byggir á fyrirliggjandi byggingarleyfum og samningum um orkukaup. Á Akureyri og í Reykjanesbæ er til staðar mikil þekking, mannauður og traust fyrirtæki sem geta veitt atNorth góða þjónustu við rekstur og viðhald á tæknibúnaði í gagnaverum fyrirtækisins,“ er haft eftir Eyjólfi Magnúsi Kristinssyni, forstjóra AtNorth.

Eins og er rekur AtNorth sjö gagnaver í fjórum af fimm Norðurlöndunum. Þá eru fjögur ný gagnaver í byggingu, tvö í Finnlandi og tvö í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK