Hrafnista hefur undirritað samstarfssamning við heilbrigðistæknifyrirtækið Helix um innleiðingu á hugbúnaðarlausninni Lyfjavaka fyrir hjúkrunarheimilin sín.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þar segir að innleiðing Lyfjavaka sé hluti af stafrænni vegferð Hrafnistu og mun lausnin samvæmt tilkynningunni auka öryggi í umsýslu lyfja, tryggja gæði lyfjaskráningar og veita betri yfirsýn við lyfjatiltekt.
Lyfjavaki er rafrænt lyfjaskráningarkerfi sem gerir hjúkrunarfræðingum kleift að halda utan um skráningar á lyfjatiltekt og lyfjagjöfum íbúa. Jafnframt er notast við smáforrit til að staðfesta lyfjagjafir. Með notkun Lyfjavaka er tryggt að rekjanleiki lyfjagjafa sé í samræmi við þær kröfur sem gilda um slíka skráningu.
„Það er ánægjulegt að fá Hrafnistu inn í hóp hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnana sem nýta sér Lyfjavaka. Lausnin okkar stuðlar að betri yfirsýn heilbrigðisstarfsfólk og tryggir nákvæmari og öruggari lyfjagjöf. Það hvetur okkur hjá Helix áfram í þeirri vegferð að bjóða tæknilausnir fyrir hjúkrunarheimili og aðrar heilbrigðisstofnanir,“ segir Magnús Már Steinþórsson, vörustjóri hjá Helix í tilkynningunni.
Gunnur Helgadóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs hjá Hrafnistu segir í tilkynningunni að innleiðingin muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi heimilanna. „Lyfjavaki á eftir að auka yfirsýn fagaðila á lyfjagjöfum og þar með tryggja betur gæði og öryggi.“