Ræstingafyrirtækið Hreint bauð viðskiptavinum og velunnurum í heimsókn í gær þann 7. nóvember til að fagna nýjum höfuðstöðvum í Vesturvör 11 í Kópavogi.
Um leið var tækifærið nýtt til að fagna 40 ára afmæli fyrirtækisins á síðasta ári.
Ari Þórðarson framkvæmdastjóri Hreint segir í samtali við mbl.is að nýju höfuðstöðvarnar séu sérhannaðar miðað við þarfir og rekstur ræstingafyrirtækis. Húsnæðið sé eins konar sýningargluggi um það hvernig best sé að skipuleggja húsnæði með tilliti til ræstinga og hvernig lágmarka megi kostnað við þær.
Í húsnæðinu er t.d. ræstingaþjarkur, kennslusvæði til ræstinga og splúnkunýr rafrænn lyklaskápur sem er mjög sjaldgæf sjón hér á landi að sögn Ara.
Hann segir að flutningur á starfsemi Hreint sé sá fyrsti frá stofnun fyrirtækisins ári 1983. „Við teljum að flutningurinn feli í sér mikilvægt skref til að stækka og styrkja starfsemi fyrirtækisins og þróun,“ segir Ari. „Við erum að hugsa þetta til lengri tíma og sjáum fyrir okkur að vera hér amk. heilan áratug eða lengur. Húsið er vel við vöxt. Flottur rammi fyrir félagið, vöxt þess og viðgang,“ segir Ari að lokum.