Segja framsetningu verkalýðsfélags villandi

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar. mbl.is/Heiddi

Bakkavör hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að félagið hafi sýnt ríkan vilja til að leysa úr kjaradeilu. Framsetning Unite the Union sé villandi.

„Verkalýðsfélagið Unite the Union hefur sagt í íslenskum fjölmiðlum að alþjóðleg herferð sé hafin gegn Bakkavör og hagaðilum þeirra. Bakkavör vill koma sínum sjónarmiðum á framfæri þar sem framsetning Unite the Union er villandi og sýnir að verkalýðsfélagið vill ekki leysa deiluna við samningaborðið,“ segir í tilkynningu. 

Verkfallið hafi staðið í sex vikur og kveðst Bakkavör hafa sýnt ríkan vilja til samninga allan tímann.

„Fyrirtækið hefur lagt fram tilboð um launahækkun umfram verðbólgu auk eingreiðslu upp á 350 pund (62.629 krónur) en verkalýðsfélagið hefur kallað til atkvæðagreiðslu um tilboðið og mælt með að því verði hafnað. Ljóst er að samningaviðræðurnar fara fram í Spalding, ekki á Íslandi.“

Bakkavör vill koma eftirfarandi á framfæri vegna deilunnar:

  • Verkalýðsfélagið heldur því ranglega fram að 700 félagar þess í Spalding séu í verkfalli. Það má vel vera að félagið sé með 700 félaga í Spalding af þeim 1.400 sem þar starfa, en það eru aðeins um 450 manns sem ekki mæta til vinnu.
  • Meira en tveir þriðju af vinnufélögum okkar, meira en 950 manns, hafa ekki tekið þátt í verkfallinu og mæta til vinnu eins og venjulega. Við kunnum þeim miklar þakkir fyrir hollustuna og stuðninginn við aðstæður þar sem reynt er að trufla starfsemina og sverta.
  • Verkalýðsfélagið hefur ítrekað sakað Bakkavör um að greiða smánarlaun en sannleikurinn er allt annar. Í september setti Bakkavör fram nýtt tilboð um 7,8% til þeirra sem eru á lægstu laununum og 6,4% til allra annarra – vel yfir framfærsluviðmiðum í Bretlandi og einnig yfir verðbólgu sem nú er 1,7%.
  • Á síðustu þremur árum hefur neysluvísitalan í Bretlandi hækkað um 21% á sama tíma og lægstu laun í Spalding hafa hækkað um 22,8% og öll önnur laun um 21,2% - hvoru tveggja yfir verðbólgu tímabilsins. Þar fyrir utan hafa ýmis hlunnindi verið bætt yfir sama tímabil.
  • Staðhæfingar verkalýðsfélagsins um áralanga raunlækkun launa kunna að vekja hörð viðbrögð en eru algjörlega forsendulausar. Raunveruleikinn er sá að Bakkavör hefur lagt hart að sér að verja starfsfólk við aðstæður þar sem verðlag hefur hækkað svo mikið að krísa hefur skapast, krísa sem mörg önnur fyrirtæki hafa ekki getað tekist á við.
  • Til viðbótar við hækkunina sem boðin var í september hefur Bakkavör boðið öllu starfsfólki í Spalding 350 punda eingreiðslu til að reyna að fá fólk aftur til starfa. Samningsvilji hjá Bakkavör er því svo sannarlega til staðar og áttu fulltrúar fyrirtækisins samtal við verkalýðsfélagið í síðustu viku.
  • Starfsfólk nýtur að auki ýmissa hlunninda eins og líftrygginga, persónulegra slysatrygginga og hefur það enn fremur aðgengi að fjölbreyttum smásöluafslætti og mikið niðurgreiddri matvöru í starfsmannaverslun Bakkavarar.
  • Í Bretlandi hefur launahækkunum Bakkavarar verið vel tekið á hinum 20 starfsstöðvum fyrirtækisins þar sem 13.500 starfsmenn hafa þegið hana á meðan starfsfólk í Spalding bíður vegna verkfallsaðgerðanna. 
  • Fólk er ánægt í starfi hjá Bakkavör. Starfsaldursviðurkenningar hafa verið veittar fleiri en fjögur þúsund starfsmönnum, fyrir 5-35 ára starfsaldur, og þetta sannar að fólk vill vinna hjá Bakkavör til lengri tíma. Þetta er orðið sjaldgæft í iðnaði í dag en er til marks um góðan vinnustað.
  • Fyrirtækið er skráð á markað og það er skylda okkar að reka fyrirtækið með sjálfbærum og ábyrgum hætti, yfir allar 21 starfsstöðvar fyrirtækisins. Við teljum að tilboð Bakkavarar sé mjög sanngjarnt miðað við starfsumhverfi fyrirtækisins. Verkalýðsfélagið hefur rétt á að heyja sína baráttu en það er skylda okkar, gagnvart nærsamfélaginu þar sem við sköpum störf, gagnvart hluthöfum og viðskiptavinum að reka fyrirtækið með sjálfbærni og sanngirni að leiðarljósi. Bretland er að koma út úr heimsfaraldri sem hefur haft veruleg áhrif á framfærslukostnað og það er því enn mikilvægara fyrir okkar rekstur að skapa verðmæti fyrir samfélagið.
  • Samþykki verkalýðsfélagið ekki tilboð Bakkavarar í atkvæðagreiðslu er deilan í hnút og Bakkavör mun áfram leita leiða svo allt starfsfólk í Spalding fái afturvirka launahækkun og bónus fyrir jól eins og starfsfólkið vonast sjálft eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK