Eins og sagt var frá á mbl.is í október hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sent Reykjavíkurborg bréf þar sem bent er á að borgin uppfylli ekki ákvæði sveitarstjórnarlaga sem munu taka gildi árið 2026 um skuldahlutföll ef miðað er við ársreikning 2023.
Gerð er krafa um það í bréfinu að gripið verði til aðgerða strax svo borgin geti sem fyrst uppfyllt umrædd skilyrði.
Skuldahlutfall A-hluta borgarinnar á að vera undir 100% en var 113% í lok árs 2023. Miðað við útkomuspá í nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar sem kynnt var í vikunni mun skuldahlutfallið fara niður í 107% í lok árs 2024. Skuldahlutfall er reiknað þannig að rekstrartekjum er deilt upp í skuldir og skuldbindingar.
Samkvæmt spánni verða tekjur tæpir 194 milljarðar en skuldir munu standa í tæpum 207 milljörðum króna í lok 2024.
Sé horft til spár í fjárhagsáætluninni fyrir næsta ár, 2025, þá verða tekjur rúmir 199 milljarðar en skuldir tæplega 218 milljarðar, eða ellefu milljörðum hærri en árið á undan. Það þýðir að skuldahlutfallið hækkar aftur og fer upp í 109%.
Eins og fyrr sagði þarf borgin að taka strax á vandanum en miðað við spárnar er hlutfallið, þó á niðurleið sé til skamms tíma, aftur á uppleið á næsta ári.
Veltufé frá rekstri segir til um hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum er til ráðstöfunar fyrir afborganir skulda og til fjárfestinga. Því hærra sem þetta hlutfall er því meiri er geta sveitarfélaga til vaxtar og viðhalds eigna. Markmið borgarinnar er að þessi mælikvarði sé yfir 7,5%. Samkvæmt ársreikningi 2023 var hlutfallið 6,5%. 2024 verður það 5,5% samkvæmt útkomuspá og á næsta ári 7,4% samkvæmt fjárhagsáætlun. Hlutfallið heldur því áfram að vera undir viðmiðunarmörkum sem þýðir að reksturinn er ekki sjálfbær.