Jenný Sif Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alvotech segist vera heppin að vinna daglega með fólki af 65 mismunandi þjóðernum. Hún sækir innblástur í samstarfsfólkið hjá Alvotech og markmið þess að auka lífsgæði almennings með aðgengi að líftæknilyfjum. Jenný Sif er í svipmynd ViðskiptaMoggans þessa vikuna.
Alvotech er að vaxa hratt, þar sem fyrirtækið er að leggja aukna áherslu á framleiðsluhliðina og fjöldi nýrra lyfja er að koma á markað. Þetta kallar á breytta mönnun og þjálfun starfsfólks, einkum í framleiðslu og gæðaeftirliti. Því fylgir óhjákvæmilega álag, en það er jafnframt ákaflega gefandi að fá að taka þátt í að byggja upp nýja stoð í atvinnulífinu á Íslandi.
Innblásturinn sæki ég í samstarfsfólkið. Ég er það heppin að fá að vinna daglega með fólki af 65 mismunandi þjóðernum, þar sem allir koma með eitthvað ólíkt að borðinu. Þá sæki ég innblástur í markmið Alvotech, sem er að auka aðgengi að líftæknilyfjum til að auka lífsgæði almennings.
Ég er með psoriasis sem versnaði eftir meðgöngu og er á líftæknilyfi, ég veit því af eigin reynslu hversu mikilvægu starfi Alvotech-teymið er að sinna.
Verkefnalistinn er langur, en það sem er næst á döfinni er vinnuferð til Indlands í nóvember. Hef ekki komið þangað áður og hlakka til að hitta fólkið á skrifstofunni. Hjá Alvotech starfar stór hópur Indverja og það eru forréttindi fyrir mig að fá að kynnast þeim betur í þeirra heimalandi.
Árlegi mannauðsdagurinn var haldinn í Hörpu 4. október sl. sem er árshátíð fagsins á Íslandi. Það er alltaf gaman að fræðast um ólík málefni og hitta fólk sem maður hefur kynnst í gegnum árin. Í ár var töluverð áhersla lögð á gervigreind, sem var mjög áhugavert.
En það sem snerti mig mest var erindi vinnumálaráðherra um þátttöku fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði og tilraunaverkefni um inngildandi vinnustaðamenningu. Þetta stendur mér nærri þar sem ég á systur með þroskaskerðingu sem hefur starfað hjá sama fyrirtækinu í 37 ár. Ég vil skoða þetta betur hjá Alvotech.
Ég ólst upp í kringum bækur þar sem fjölskyldan mín rak prentsmiðju og finnst gott að hafa bækur í kringum mig. Samt eru fáar bækur sem sitja eftir sem einhvers konar áhrifavaldar.
Fyrsta bókin sem ég las í tengslum við starfið var „The 7 Habits of Highly Effective People“ eftir Stephen R. Covey. Eftir að ég tók við núverandi stöðu hef ég reynt að tileinka mér þessa aðferðafræði og sú bók hefur haft mest áhrif á mig í starfi.
Þekkingin kemur svolítið með reynslunni í mínu starfi. Ég mætti vera duglegri að sækja ráðstefnur og lesa fræðigreinar. Ég bý að því að eiga náinn hóp fyrrverandi samstarfskvenna sem hittist reglulega og nærir einnig sálina. Ræddir eru hlutir sem tengjast mannauðsmálum og við getum leitað í reynslubrunn hver annarrar. Teymið hjá Alvotech er einnig frábær blanda bæði af fólki með mikla og litla reynslu í faginu. Að fá að leiðbeina þeim reynsluminni viðheldur þekkingunni og veitir einnig ný sjónarhorn á viðfangsefnið.
Mikilvægast er að skilja hvernig mannauðssviðið getur sem best stutt við markmið fyrirtækisins. Til þess þarf ég að vera í góðu sambandi við aðra stjórnendur og get ég bæði miðlað minni þekkingu og fæ til baka það sama.
Ég hef aldrei átt neitt draumastarf sem slíkt. Ef maður er heppinn er draumastarfið það starf sem maður sinnir hverju sinni. En ég ber ómælda virðingu fyrir kennarastarfinu og mér líður sjaldan betur en þegar ég fæ tækifæri til að miðla þekkingu minni í gegnum kennslu.
Ég myndi bæta við mig gráðu á sviði rekstrar eða viðskipta. Þegar ég var að velja háskólanám kom margt til greina, en viðskiptafræði þó ekki. Í dag væri ekki verra að hafa betri grunn þar. Að taka þátt í áætlanagerð og rýna í kostnað er alveg skóli út af fyrir sig.
Viðtalið birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.