Tvöföld mikilvægisgreining og annað sem þú þarft að skilja – eða hvað?

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir og Ásdís Sigurbergsdóttir.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir og Ásdís Sigurbergsdóttir. Samsett mynd

Ásdís Sigurbergsdóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir skrifa:

„Við höfum gert tvöfalda mikilvægisgreiningu og uppfært aðferðafræði við sjálfbærnireikningsskil auk þess sem við skilum nákvæmu loftslagsbókhaldi.“

Þessi setning er dæmi um fullyrðingu sem gæti staðið í skýrslu hjá metnaðarfullu fyrirtæki í sjálfbærnimálum. En skilur venjulegt fólk hvað átt er við?

Fagmennska á kostnað skilnings

Á komandi árum munu sífellt fleiri fyrirtæki á Íslandi innleiða reglugerðir Evrópusambandsins um upplýsingagjöf í sjálfbærnimálum þar sem gerðar eru ríkari kröfur um fagmennsku, gagnsæi og ábyrgð. Þetta mun vonandi styðja og styrkja íslensk fyrirtæki í að ná markverðum árangri í þágu umhverfis og samfélags. Með aukinni fagmennsku og aðkomu ýmissa sérfræðinga er þó hætta á að tungumálið í kringum sjálfbærni verði aðeins skiljanlegt þeim sem vinna í málaflokknum eða hafa menntun í sjálfbærni.

Skýrslugjöf í tengslum við sjálfbærni er ekki aðeins til þess að haka í box eða mæta kröfum löggjafans heldur geta sjálfbærniskýrslur verið áhrifaríkt verkfæri í samskiptum og til að hrífa fólk með. Að baki sjálfbærniskýrslum er umfangsmikil vinna og því mikill missir fyrir fyrirtæki ef ekki næst að miðla efni þeirra þannig að fólk skilji. Ef sjálfbærniskýrslur eru einungis lesnar af sérfræðingum missa þær verulega marks.

Segjum sögur af sjálfbærni

Samskipti og upplýsingagjöf í tengslum við sjálfbærni má nota til að ná til almennings, starfsfólks, fjárfesta og annarra hagaðila – og þá er mikilvægt að leggja sig fram við að skilja þessa hópa og hvað þeir þurfa. Grundvallaratriði í árangursríkum samskiptum er nefnilega að setja sig í spor viðmælandans og sjá heiminn frá hans sjónarhorni.

Fjárfestir kann að hafa áhuga á að skilja betur langtímaáhrif fjárfestingar sinnar, starfsmaður vill fá hnitmiðaðar upplýsingar um árangur í sjálfbærnimálum sem eykur stolt af vinnustaðnum og viðskiptavinur þarf aðgengilegar og áhugaverðar upplýsingar sem geta hjálpað honum að velja hvert hann skal stýra viðskiptum sínum. Almenningur vill svo fá upplýsingar um að atvinnulífið vinni skipulega að sjálfbærnimálum. Í öllum tilfellum þarf að segja sögu af sjálfbærni sem áheyrandinn skilur, getur tengt við og svarar einhverjum af þörfum hans.

Sjálfbærni oftar en einu sinni á ári

Mörg fyrirtæki falla í þá gryfju að fjalla um sjálfbærnimál aðeins einu sinni á ári – þegar sjálfbærniskýrslan kemur út. Til að skila árangri þarf sjálfbærni að vera til umfjöllunar oftar og helst auðvitað að vera partur af kjarnastefnu fyrirtækisins. Hún ætti að vera rauður þráður í bókinni, ekki viðbótarkafli í lokin.

Til að auka trúverðugleika í sjálfbærnimálum þurfa fyrirtæki að tryggja að venjulegt fólk geti tengt við vegferðina, skilið áskoranirnar og séð fyrir sér hvernig fyrirtækið leysir vandamálin sem við öll stöndum frammi fyrir. Því er varasamt að líta á skýrslugjöf í sjálfbærnimálum sem ferli sem þarf að drífa af reglulega og láta sérfræðingana um. Því þetta er tækifæri.

Með miðlun á sjálfbærnivegferð fyrirtækja geta þau tekið þátt í samtali sem á sér stað um hvernig við náum árangri í fjölmörgum áskorunum samtímans. Samtal um það efni á ekki bara við einu sinni á ári eða á milli sérfræðinga, heldur gagnvart öllum sem hafa hag af betra samfélagi.

Höfundar eru ráðgjafar hjá samskiptafélaginu Aton

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK