Elfa Ólafsdóttir markaðsstjóri Helix hefur verið tilnefnd til Nordic Women in Tech-verðlaunanna sem eru veitt til að varpa ljósi á árangur kvenna í tæknigeiranum á Norðurlöndum. Elfa er tilnefnd í flokknum „Framtak ársins“ þar sem einstaklingar eða fyrirtæki eru heiðruð sem sýna mikilvægi kvenna í tæknigeiranum í gegnum kennslu, þjálfun, eða markaðsherferðir.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þar segir einnig að Elfa stýri stefnumótun og markaðsmálum vörumerkisins. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og er einnig með meistaragráðu í alþjóðamarkaðssetningu frá Emerson College í Boston.
Í umsögn frá aðstandendum Nordic Women in Tech verðlaunanna er sagt að Elfa nýti vel reynslu sína úr hjúkrun og markaðsfræðum og að hún vinni að framförum og nýsköpun í íslensku heilbrigðiskerfi.
Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix fagnar tilnefningunni: „Kvenfyrirmyndir í tæknigeiranum eru gríðarlega mikilvægar og sérstaklega er mikilvægt að efla konur í leiðtogahlutverkum innan tæknifyritækja. Við hjá Helix erum mjög stolt af markaðsstýrunni okkar Elfu og hennar tilnefningu til þessara verðlauna,” segir Arna í tilkynningunni.
Verðlaunin verða afhent í Ósló í Noregi á morgun, 13. nóvember.