Líkur eru á að verð á hrávörumörkuðum lækki um 5% á næsta ári og um 2% árið 2026. Þetta kemur fram í skýrslunni Commodity Markets Outlook sem Alþjóðabankinn gefur út tvisvar á ári. Þar kemur fram að olíuverð muni leiða þá þróun en verð á jarðgasi gæti hækkað og búist er við stöðugu verði á málmum og landbúnaðarhráefnum.
Jafnframt kemur fram í skýrslunni að hætta sé á að aukin spenna í Mið-Austurlöndum geti hækkað orkuverð til skemmri tíma, sem hefði áhrif á aðra hrávöru. Til lengri tíma litið séu hins vegar merki um verðlækkun á olíu. Á sama tíma eru bæði jákvæð og neikvæð teikn á lofti í eftirspurn eftir iðnaðarhráefnum í tengslum við efnahagslegan vöxt.
Öflugur hagvöxtur í Bandaríkjunum og stuðningsaðgerðir í Kína gætu leitt til hærra hrávöruverðs, á meðan hægari efnahagsvöxtur á heimsvísu gæti haldið aftur af verði.
Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) gefur út mánaðarlega hrávöruverðsvísitölu.
Klara Símonardóttir framkvæmdastjóri RSV segir í samtali við Morgunblaðið að hrávöruvísitalan sem RSV tekur saman mánaðarlega hafi þróast misjafnlega eftir því um hvaða hrávöru sé að ræða. Töluverðar hækkanir hafa til að mynda átt sér stað á verði á kakóbaunum og appelsínum.
„Það hefur átt sér stað uppskerubrestur bæði á kakóbaunum og appelsínum sökum veðurfars. Við sjáum einnig að verð hefur verið að lækka, eins og til að mynda á hveiti, en verð á hveiti rauk upp eftir innrásina í Úkraínu. Við erum nú að sjá þessar verðhækkanir ganga til baka,“ segir Klara.
Spurð hversu mikil áhrif hún telji að umræddar hrávöruverðshækkanir muni hafa hér á landi segir hún að erfitt sé að meta það með mikilli vissu.
„Lækkun á olíuverði yrði vissulega flestum íslenskum fyrirtækjum til hagsbóta enda flutningskostnaður stór hluti af vöruverði. Hvort og hvernig lækkanir komi til með að hafa áhrif á Íslandi á eftir að koma í ljós en fer þá eftir því hverjar lækkanirnar verða á einstökum flokkum hrávöru og verður þá betur hægt að mæla áhrifin,“ segir Klara.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.