Raddmennið Freyja, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í maí sl., og hefur verið í notkun hjá Sjóböðunum í Hvammsvík síðastliðna mánuði, er nú byrjað að spjalla við viðskiptavini á íslensku. Hingað til hefur Freyja svarað á ensku, þó hún hafi getað svarað með texta á íslensku í tölvupósti og í spjallforritum.
Í fréttatilkynningu frá Menni.is sem þróar raddmennið segir að Freyja sé þar með orðin fyrsta raddmennið sem talað getur íslensku.
Freyju hefur tekist að leysa úr 70% símtala samkvæmt tilkynningunni en flóknari spurningar sendir hún yfir á mennska kollega sína í þjónustuveri Hvammsvíkur.
„Freyju er fyrst um sinn ætlað að svara algengustu spurningum þeirra sem hringja inn en með tíð og tíma mun hún geta svarað rauntímaupplýsingum á borð við hvort það sé laust pláss í sjóböðunum og hvernig veðrið sé í Hvammsvík," segir í tilkynningunni.
Skúli Mogensen stofnandi Hvammsvíkur segir í tilkynningunni að raddmennið sé mjög spennandi tækni. „Það er vel við hæfi að Freyja fari af stað í viku íslenskunnar, þegar fólk er að velta fyrir sér stöðu tungumálsins í heimi gervigreindar. Nýjungar eins og Freyja munu gera okkur kleift að varðveita íslenskuna og til dæmis talsetja efni á auðveldan hátt. Eins og allir sem eru að fóta sig í íslenskunni, þá þarf Freyja að læra með því að tala og ég hvet fólk til að hringja í 590-5900, spjalla við hana og hjálpa henni að læra,” segir Skúli.
Róbert Híram tæknistjóri og yfirmaður stafrænnar þróunar hjá Menni.is segir að það hafi verið skemmtilegt og krefjandi að þróa raddmennið og bætir við að fyrirtækið stefni nú á það að innleiða fleiri sambærileg raddmenni.