Almannahagsmunir?

Birgir Már Björnsson, hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og aðjunkt við …
Birgir Már Björnsson, hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og aðjunkt við Háskólann í Reykjavík.

Birgir Már Björnsson skrifar:

Löggjöf á sviði vinnuréttar á sér langa sögu og hefur tekið breytingum samfara þróun íslensks vinnumarkaðar. Meðal réttinda á sviði vinnuréttar er réttur launafólks til að leggja niður störf. Í tengslum við verkfallsrétt hefur löggjafinn leitast við að skilgreina nánar nauðsynlega þjónustu þar sem verkfallsréttur er ekki fyrir hendi eða hann takmarkaður að einhverju leyti. Í lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru þannig takmörkuð réttindi opinberra starfsmanna í ríkari mæli en gildir á almennum vinnumarkaði. Lögin tiltaka að heimild til verkfalls gildi m.a. ekki um embættismenn, alþingismenn, starfsmenn dómstóla, tiltekna starfsmenn sveitarfélaga og þá sem starfa við nauðsynlega öryggis- og heilbrigðisþjónustu. Til að lágmarka tjón í almannaþjónustu er reynt með undanþágulistum að halda grunnþjónustu gangandi og á grundvelli þess er verkfallsréttur lækna t.d. takmarkaður þannig að þeim beri áfram að sinna nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu og bráðatilvikum meðan á verkfalli stendur. Í 31. gr. lögreglulaga er þá mælt fyrir um að lögreglumenn njóti ekki verkfallsréttar en mælt fyrir um gerðardómsmeðferð til úrlausnar ágreinings um kjaramál þeirra náist samningar ekki. Er gerðardómsmeðferðinni ætlað að tryggja mat óháðs matsaðila á þróun kjara í stéttinni.

Löggjafinn hefur í þessum tilvikum og fleirum afmarkað tiltekna grunnþjónustu almennings þar sem verkföll eru líkleg til að valda svo miklu raski að það teljist skaða almannahag og réttlæti að verkfallsréttur sé ekki til staðar eða hann takmarkaður. Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér öðrum grundvallarréttindum sem ekki eru skilgreind sem almannahagsmunir í vinnuréttarlegu tilliti, og það er skólaskylda barna og ungmenna og réttur þeirra til náms. Hvort tveggja er þegar tryggt sem grundvallarréttindi bæði í lögum og alþjóðasamningum. Nú eru yfirstandandi kennaraverkföll og er markmið þessarar greinar ekki að taka afstöðu til kröfugerðar kennara í þeim deilum né aðferðafræði þeirrar er beitt er við verkfallsaðgerðirnar. Sem foreldri barna á skólaaldri og sonur kennara er mér einnig ljóst hve mikilvægt það starf er sem kennarar sinna og að mikilvægt sé að starf þeirra, ábyrgð og menntun endurspeglist með viðeigandi hætti í launakjörum.

Í þessari grein er heldur verið að varpa upp því álitaefni hvort réttlætanlegt sé með hliðsjón af almannahagsmunum að ótakmarkaður verkfallsréttur sé til staðar um störf þeirra hverra skyldur eru að framfylgja lögbundinni skólaskyldu og lögbundnum réttindum barna til náms. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er lágmark skólaskyldu ungmenna skilgreint og er nemendum skylt að sækja skóla og sveitarfélögum að tryggja að slík skylda sé efnanleg fyrir nemendur. Foreldrar eru að sama skapi ábyrgir fyrir því að börnin sæki skóla, að viðlögðu inngripi barnaverndarþjónustu. Í lögunum er hins vegar ekki fyrir að fara skilgreiningu þess efnis að skólaskylda og menntun barna teljist til almannahagsmuna í vinnuréttarlegu tilliti. Hvorki í lögum nr. 91/2008 né öðrum lögum er mælt fyrir um að verkfallsréttur starfsmanna er sinni skólaskyldu barna og ungmenna sé takmarkaður að einhverju leyti með vísan til skólaskyldunnar, s.s. við nauðsynlega lágmarksskólaskyldu, ekki ósvipað því og gildir um verkfallsrétt lækna.

Færa má fyrir því ágæt rök að ótakmarkaður verkfallsréttur þeirra sem ábyrgð bera á framfylgd skólaskyldu barna og ungmenna, skarist um of við réttindi barna til náms, svo réttlætanlegt væri að takmarka verkfallsréttinn að einhverju leyti. Það mætti útfæra þannig að skilgreint væri í lögum að skólaskylda teldist til þjónustu í þágu almannahagsmuna og að tryggja bæri að tiltekin lágmarksþjónusta væri tryggð í skólum þrátt fyrir deilur eða átök á vinnumarkaði. Þannig mætti mæla fyrir um að kennarar væru skyldugir til að sinna lágmarkskennslu meðan á vinnudeilum stendur til að tryggja að skilgreint lágmark skólaskyldu barna sé uppfyllt. Samhliða slíkum breytingum má sjá fyrir sér að mælt yrði fyrir um sérstaka gerðardómsmeðferð á þessu sviði þar sem ágreiningi um kjör væri falin skjótari úrlausn eftir fyrirframákveðinni málsmeðferð.

Á verkföllum tapa nefnilega börnin alltaf, án umræðu- eða ákvörðunarréttar þeirra. Ekki ósvipað og þegar viðhaldi skólahúsnæðis barna er ekki sinnt. Það er því rétt að spyrja sig: Er réttur barna til náms ekki almannahagsmunir?

Höfundur er hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og aðjunkt við Háskólann í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK