Ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið KPMG á Íslandi seldi fyrr í mánuðinum bókhalds- og launaþjónustuna Bókað til norska fjármála- og tæknifyrirtækisins ECIT AS. Söluverð er trúnaðarmál. Gert er ráð fyrir endanlegum frágangi viðskiptanna í ársbyrjun 2025. KPMG verður áfram hluthafi með 10% eignarhlut.
Bókað sinnir þjónustu við um 2.000 fyrirtæki og stofnanir um land allt.
Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri KPMG segir í samtali við ViðskiptaMoggann að salan sé hluti af stærri áformum. „Við höfum verið að vinna eftir stefnumörkun síðustu tvö árin sem byggist á markmiðum um að stækka á öllum sviðum. Það hefur gengið vel. Við höfum verið að auka hlutdeild okkar á markaði, tekjur hafa vaxið og félagið sömuleiðis,“ segir Hlynur.
Eftir söluna verða þrjú kjarnasvið eftir hjá KPMG; endurskoðunarsvið, ráðgjafarsvið og KPMG Law sem annast lögfræðiþjónustu og skattaráðgjöf.
Framkvæmdastjórinn segir að bókhaldssviðið hafi verið stórt og vaxandi en hafi ekki fallið vel að alþjóðlegu rekstrarmódeli KPMG. „Þessi þjónusta er meira í samstarfsformi hjá KPMG alþjóðlega. Unnið er með sérhæfðum aðilum frekar en að hafa þessa þjónustu sem hluta af kjarnastarfsemi. Það varð til þess að við byrjuðum að hugleiða söluna.“
KPMG á Íslandi velti nálægt átta milljörðum króna á síðasta ári. Félagið er með 15 starfsstöðvar um allt land og 330 starfsmenn. Þar af hafa 80 unnið hjá Bókað. „Þetta er því talsverður hluti af starfseminni sem við erum að selja.“
Hlynur segir að ECIT sé sérhæft alþjóðlegt tæknifyrirtæki á sviði bókhalds og tengdrar þjónustu með starfsemi í tíu löndum. „Það er með sýn og tækni til að taka þessa þjónustu inn í framtíðina. Við munum áfram nýta okkur þjónustu þeirra. ECIT kom inn á íslenska markaðinn í fyrra. Það keypti smærri einingar á sviði bókhalds- og launavinnslu og tekur nú enn stærra skref. Þeir eru líklegri til að hreyfa sig hraðar þegar kemur að tækniþróun og nýjungum á þessu sviði en við sáum fyrir okkur að geta gert.“
Hlynur bætir við að allir starfsmenn, framkvæmdastjóri og aðrir lykilstarfsmenn, muni halda áfram hjá Bókað. „KPMG mun áfram veita viðskiptavinum Bókað þjónustu á þeim sviðum sem við sinnum best, reikningsskilum, skattamálum, endurskoðun og eftir atvikum annarri ráðgjafarþjónustu.“
KPMG alþjóðlega er hluti hinum „stóru fjórum“ í endurskoðunar- og ráðgjafarbransanum. Hin eru EY, Deloitte og PWC. „KPMG hefur haft á sér stimpil fyrir að vera traustur aðili. Við byggjum allt á því. Án trausts erum við ekkert,“ segir Hlynur.
Hann segir að KPMG á Íslandi hafi á síðustu tveimur árum aukið samstarf sitt við KPMG-fyrirtækin annars staðar á Norðurlöndum. „Við vinnum í sífellt meiri mæli með kollegum okkar þvert á landamæri. Með nýjum áherslum erum við að laga viðskiptamódel okkar að því sem KPMG alþjóðlega vinnur eftir.“
Hlynur segir að stór hluti af samvinnu KPMG á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum sé í fræðslumálum. „Það snýr að starfsfólki okkar sem hefur haft mikið samband við kollegana úti á þessu sviði. Annað samstarf hefur einnig verið að aukast mikið. Við fáum til dæmis reglulega sérfræðinga hingað til lands til að vinna með okkur, sérstaklega í ýmsu er snýr að þjónustu við stóra viðskiptavini. Þetta góða samstarf gerir okkur betur kleift að þjónusta stærstu fyrirtækin á Íslandi sem eru mörg mjög alþjóðleg í eðli sínu. Svo vinnum við mikið fyrir opinbera aðila líka, t.d. sveitarfélög og ráðuneyti. Það er því oft mjög gott að geta dregið á sérfræðiþekkingu innan Norðurlandanna.“
Spurður um nýjungar á þeim sviðum sem KPMG starfar á segir Hlynur að stöðug þróun sé í geiranum. „Við höfum verið að efla okkur í ráðgjöf í stafrænni vegferð fyrirtækja og stofnana. Við hjálpum þeim að stafvæða ferla til að auka skilvirkni og hagkvæmni. Í þessu felst til dæmis mikil sérhæfð líkanasmíð og við gerum mælaborð af ýmsu tagi.“
Sem dæmi þar um nefnir Hlynur nýtt mælaborð á heilbrigðissviði sem tengist þörf á hjúkrunarrýmum. „Þar birtast ýmsar sviðsmyndir, öflugar skýrslur og greiningartól.“
Annað sem farið hefur mikið vaxandi síðustu ár er ráðgjöf á sviði sjálfbærni. „Við erum með mjög sterkt ráðgjafarteymi þar. Sjálfbærniþjónusta er meira og meira að færast yfir í staðfestingarvinnu fjárhagsupplýsinga í tengslum við endurskoðun.“
Spurður að lokum um stöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegu tilliti segir Hlynur það standa býsna vel. Hann segir þó aðspurður að Íslendingar gangi oft heldur langt í innleiðingu á evrópsku regluverki. „Heilt yfir er hollast fyrir okkur að hafa eins lítið íþyngjandi regluverk og við getum. Það má ekki gleypa við öllu og hafa verður í huga hversu smátt samfélag okkar og atvinnulíf er.“
ECIT með 47 milljarða veltu
Árstekjur ECIT eru 47 milljarðar króna og starfsmenn 2.500 á meira en eitt hundrað skrifstofum í tíu löndum. ECIT veitir bókhalds- og launaþjónustu alls staðar á Norðurlöndum auk nokkurra annarra landa. Að auki veitir félagið víðtæka þjónustu á sviði upplýsingatækni og viðskiptalausna. Fyrirtækið hefur starfað á Íslandi frá 2023 og hefur áður fjárfest í fjármálaþjónustu og bókhaldsfyrirtækinu Virtus auk smærri eininga á sviði bókhalds- og launaþjónustu. Starfsmenn ECIT á Íslandi verður 110 eftir kaupin á Bókað.