Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig.
Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.
Fram kemur í tilkynningu að verðbólga hafi hjaðnað undanfarið en hún mældist 5,1% í október. „Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað,” segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Þetta er annað skiptið í röð sem nefndin lækkar vexti bankans, en í október voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig. Var það í fyrsta skiptið í næstum fjögur ár, eða frá nóvember 2020 sem Seðlabankinn lækkaði vexti.
Hæst fóru vextir bankans á síðustu árum í 9,25%. Héldust þeir þannig frá ágúst í fyrra þangað til í ágúst í ár.
Bæði hagfræðideild Landsbankans og greiningardeild Íslandsbanka höfðu spáð 0,5 prósentustiga vaxtalækkun hjá Seðlabankanum. Íslandsbanki hafði þó þann fyrirvara á að lækkunin gæti numið 0,25 prósentustigum.
„Áhrifa þétts peningalegs taumhalds gætir áfram í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið,“ segir jafnframt í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
„Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir þar einnig.