„Við erum á þeirri skoðun að þetta sé rétt að byrja með Bitcoin og aðrar rafmyntir. Það verður að hafa það í huga að árið 2021 var verðið um 69 þúsund dalir, sem var án aðkomu eins valdamesta mannsins og stærstu eignastýringarhúsa heims sem eru núna að byrja að uppgötva þennan eignaflokk.“
Þetta segir Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, spurður nánar um ástæður þess að Bitcoin-verð fór upp í hæstu hæðir eftir að Donald Trump var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Hann segir aðspurður að hækkunin í síðustu viku hafi verið sú mesta í dollurum talið, en verðið fór úr 67 þúsund dölum (um 9,2 milljónum ISK) í um 90 þúsund dali (um 12,4 milljónir ISK).
„Núna er verið að tala um mestu aukningu sem við höfum séð á svona skömmum tíma. Þrátt fyrir að verð á Bitcoin hafi í gegnum tíðina hækkað mikið hlutfallslega er þessi hækkun nú sú mesta í dollurum talið,“ segir Daði í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir sigur Repúblikanaflokksins sérstaklega mikilvægan fyrir rafmyntageirann, þar sem Trump talaði í aðdraganda kosninganna um þær fyrirætlanir sínar að gera Bandaríkin að höfuðvígi rafmynta í heiminum.
„Trump tók þetta skýrt fram í ræðu sinni á stærstu Bitcoin-ráðstefnu heims í júlí, þar sem hann talaði um, með mjög afgerandi hætti, hvernig hann hygðist taka utan um bandaríska rafmyntageirann. Hann sagðist kaupa Bitcoin til að setja í gjaldeyrisvaraforða Bandaríkjanna, sem var mjög stórt augnablik fyrir rafmyntina,“ segir Daði að lokum.