Sparisjóðurinn indó tilkynnti í dag um vaxtalækkanir. Lækkun á vöxtum á yfirdrætti og sparibaukum tekur gildi 3. desember næstkomandi en á debetreikningi þann 21. janúar 2025. Bæði er um að ræða lækkun á innláns- og útlánsvöxtum.
Breytingar á vöxtum eru:
Debetreikningar: Lækka um 1,00 prósentustig, niður í 2,75%.
Sparibaukar: Lækka um 0,50 prósentustig, niður í 7,60%.
Yfirdráttur í niðurgreiðslu: Lækkar um 0,75 prósentustig, niður í 13,50%.
Yfirdráttur án niðurgreiðslu: Lækkar um 0,75 prósentustig, niður í 15,50%.
Fram kemur í máli Hauks Skúlasonar, framkvæmdastjóra indó, í tilkynningu að ákvörðunin um að lækka yfirdráttarvexti meira en sem nemur lækkun meginvaxta Seðlabankans sýni skýran vilja sparisjóðsins til að styðja við íslensk heimili.
„Við fögnum því að Seðlabankinn hafi lækkað meginvexti tvisvar í röð. Við höfum ákveðið að taka enn stærra skref með því að lækka útlánavexti meira en sem nemur lækkun Seðlabankans og taka þannig stöðu með heimilum. Þetta er sérstaklega mikilvægt í aðdraganda jóla þegar útgjöld heimila eru oft há,“ segir Haukur.
Til að mæta þessari lækkun á útlánavöxtum lækkaði bankinn einnig vexti á veltiinnlánum meira en stýrivextir lækkuðu.
„Við teljum mikilvægt að vaxtabyrði heimila lækki með skýrum og merkjanlegum hætti. Með þessu getum við boðið enn hagstæðari lánakjör og leggjum áherslu á að lækka vexti á debetreikningum frekar en á sparibaukum. Þannig viljum við hvetja áfram til sparnaðar á sama tíma og við lækkum vaxtabyrði af lánunum,“ bætir Haukur við.