Ný ríkisstjórn þurfi að hafa hraðar hendur

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Heiðar Guðjónsson fjárfestir eru á einu máli um að endurskoða þurfi orkulöggjöfina í viðskiptaþætti Dagmála sem kom út í gær.

Hörður telur óhjákvæmilegt að hafa einhverja langtímasýn sem feli í sér forgangsröðun á því hvaða nýtingarkostum er hleypt áfram. Mikilvægt sé þó að stjórnvöld komi nýjum kostum í nýtingarferli strax í upphafi kjörtímabils.

„Núna, eftir kosningarnar, þarf í fyrsta lagi að stíga inn og annaðhvort setja lög eða setja nýja kosti í nýtingarflokk, strax á fyrsta þingi, sem taka þá við af þeim kostum sem við erum með núna, bæði okkar kosti og annarra kosti, og síðan að nota kjörtímabilið til þess að endurskoða fyrirkomulagið,“ segir Hörður.

Að koma nýjum kostum í nýtingu þoli ekki bið eftir endurskoðun fyrirkomulagsins.

„Ef við ætlum að byrja á því að gera það þá tekur það allt kjörtímabilið og þá lendum við aftur eftir fjögur ár í því að okkur vantar tilfinnanlega orku. Þannig að við þurfum að gera hvort tveggja, að taka ákveðnar ákvarðanir tiltölulega fljótt og síðan þarf að endurskoða fyrirkomulagið að mínu mati,“ segir hann.

Heiðar er sama sinnis og telur það eiga að vera pólitískt einfalt þar sem þjóðin sé á einu máli.

„Þegar þú ert með 90% sátt um eitthvað, þá hlýtur að vera auðvelt að hrinda því í framkvæmd,“ segir hann.

Hörður bendir á að þeir kostir sem færu í nýtingu í upphafi kjörtímabils færu aldrei í framkvæmd fyrr en undir lok kjörtímabils, enda taki leyfisferlið lágmark fjögur ár.

Við höfum mikið að gera næstu 2-3 árin með verkefnin sem eru að hefjast núna, þar sem við þurfum að geta haldið beint áfram og ef við ætlum að uppfylla þessar þarfir samfélagsins til 2035 um aukningu um 5-6 TWst þá þurfum við að undirbúa næstu kosti strax.“

Heiðar segist ekki telja flokkana meðvitaða um hve brýnt sé að hafa hraðar hendur, aðeins einn flokkur af þeim stærstu hafi þetta á meðal helstu kosningaárherslna og stefnurnar séu yfirleitt mjög almennt orðaðar.

„Ég hefði búist við því að þessir flokkar kæmu fram og segðu: „Við breytum orkulögunum, við afnemum rammaáætlun eins og hún er í dag, við lofum að klára allar leyfisveitingar innan tveggja ára tímaramma,“ þannig að við getum farið að framleiða það sem þjóðin sannarlega vill að sé framleitt,“ segir Heiðar.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Heiðar Guðjónsson fjárfestir.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Heiðar Guðjónsson fjárfestir. Morgunblaðið/Kristófer Liljar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka