Viðskiptavinir Arion banka furða sig margir á uppfærðum skilmálum bankans. Óljóst er hvaða skilmálum hefur verið breytt og svo virðist sem bankinn geri ráð fyrir að viðskiptavinir leggi til sinn eigin hraðbanka.
Í skilmálum Arion banka segir: „Fari viðskipti fram í gegnum tölvu, síma, appi bankans, hraðbanka eða annars konar vélknúnum búnaði skal viðskiptavinur leggja til þann vél- og hugbúnað sem nauðsynlegur er.“
Þýðir þetta þá að viðskiptavinir Arion banka þurfi að fara að fjárfesta í eigin hraðbanka?
Ólíklega, en mbl.is leitaði svara frá bankanum og þar viðurkennir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, að þessi tiltekni liður skilmálans megi vissulega vera skýrari.
„Það sem átt er við er í huga flestra sjálfgefið. Það er að segja, þegar viðskiptavinir nýta tölvu eða síma til að stunda viðskipti í gegnum app eða hraðbanka, sem bankinn vissulega útvegar, þá er það þeirra að leggja til símann eða tölvuna og nauðsynlegan hugbúnað til að framkvæma viðskiptin,“ skrifar Haraldur í svari við fyrirspurn mbl.is.
Umræða spannst um skilmálana nýju á Facebook-hópnum „Fjármálatips“ þar sem viðskiptavinir bentu á að þó svo að Arion banki hafi upplýst viðskiptavini sína um breytta skilmála komi það hvergi fram hvaða skilmálum hafi verið breytt. Þetta hyggst bankinn laga.
Eftir að viðskiptavinir bentu bankanum á að betur mætti útskýra í hverju breytingarnar felast hefur bankinn útbúið samantekt á helstu breytingum sem Haraldur segir að sett verði á vef bankans og send í sérstakri tilkynningu til viðskiptavina.
„Okkur þykir miður að hafa ekki gert það á sama tíma og nýir skilmálar voru sendir,“ segir hann.
„Rétt er að benda á að breytingar skilmálanna taka ekki gildi, gagnvart núverandi viðskiptavinum, fyrr en 18. janúar 2025, þannig að þeir hafa góðan tíma til að kynna sér breytingarnar.“
Haraldur nefnir að viðskiptaskilmálar þarfnist reglulegrar uppfærslu, t.d. vegna breytinga í lagaumhverfi og tækninýjunga.
„Einnig höfum við gripið til aukinna ráðstafanna vegna fjölgunar svikamála sem gera þarf grein fyrir í skilmálum. Það bregður hins vegar svo við nú að nokkuð er umliðið síðan skilmálunum var breytt og því er um nokkuð viðamiklar breytingar á skilmálunum að ræða,“ segir Haraldur.