Kerecis-hjón fjárfesta í leiguflugi

Hjónin Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, og Fanney Kr. Hermansdóttir eiginkona hans og fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækisins eru meðal fjárfesta í félaginu Leigufluginu ehf (Air Broker Iceland) sem sérhæfir sig í útleigu flugvéla og þyrlna til einstaklinga, stofnana og fyrirtækja. Fjárfesting þeirra hjóna er í gegnum félagið FnFI ehf. 

Eins hafa Guðmundur Óskarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair og núverandi framkvæmdastjóri vöru- og markaðsmála hjá Kerecis og Kristín Þorleifsdóttir fjárfest í Leigufluginu í gegnum félagið Vesturflöt ehf. 

Kristín Þorleifsdóttir og Guðmundur Óskarsson.
Kristín Þorleifsdóttir og Guðmundur Óskarsson. Ljósmynd/Aðsend

Samtals eignast félögin 49% í félaginu.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Leigufluginu ehf. 

Stofnendur Leiguflugsins ehf. eru Ásgeir Örn Þorsteinsson og Einar Hermannson. Í tilkynningu segir að báðir búi yfir áratugareynslu úr greininni gegnum störf sín hjá Icelandair, Flugfélagi Íslands og Flugfélaginu Erni. 

Bjóða upp á sjúkraflug 

„Fyrir okkur er mikill styrkur fólginn í því að fá Fanneyju, Fertram, Guðmund og Kristínu um borð. Félagið er í góðum vexti og við hlökkum til að byggja það upp til framtíðar í samstilltum eigendahópi,” er haft eftir Ásgeiri Erni framkvæmdastjóra.

„Markaðurinn fyrir flug á Íslandi er að taka miklum breytingum, við sjáum aukna eftirspurn á ýmsum sviðum, t.d. í sjúkraflugi þar sem við bjóðum sérútbúnar sjúkraþotur sem tryggja betri þjónustu við sjúklinga, betri vinnuaðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og stytta verulega  sjúkraflugtímann frá því sem Íslendingar eru vanir. Opnun nýrra flugvalla á Grænlandi opnar líka ýmis tækifæri í auknum flugsamgöngum milli þjóðanna,“ segir í tilkynningu. 

Ásgeir Örn Þorsteinsson og Einar Hermannson eru stofnendur Leiguflugsins ehf.
Ásgeir Örn Þorsteinsson og Einar Hermannson eru stofnendur Leiguflugsins ehf. Ljósmynd/Aðsend

Viðskipta- og samfélagslegar forsendur 

Haft er eftir Guðmundi Fertram að bæði viðskipta- og samfélagslegar forsendur séu fyrir fjárfestingu þeirra hjóna.

„Við höfum trú á flugmarkaðnum og stofnendum félagsins, en líka mikinn áhuga á samgöngumálum í stærra samhengi. Flugsamgöngur eru mikilvægar fyrir land og þjóð, og við teljum að aukið fjárhagslegt bolmagn þessa metnaðarfulla félags skili samfélagslegum ávinningi,” segir hann.“ Leiguflug er mikilvægur valkostur fyrir hópa, fyrirtæki og íþróttafélög, hvort sem þeir þurfa að komast til Ísafjarðar eða stórborga erlendis.“

Þá kemur fram í tilkynningu að Leiguflugið ehf. hafi yfir hundrað samstarfsaðila sem tryggi aðengi að flugvélum og þyrlum með stuttum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK