Kanada verði land tækifæranna

Snævi þakinn Pierre Poilievre. Hann boðar stefnu sem gengur þvert …
Snævi þakinn Pierre Poilievre. Hann boðar stefnu sem gengur þvert á það sem Trudeau hefur lagt áherslu á undanfarinn áratug. AFP/Alexis Aubin

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Það er margt sem Kanadabúar geta verið stoltir af: Kanada er fallegt og friðsamt land, ríkt af náttúruauðlindum og með blómstrandi menningarlíf, en best af öllu er að leita þarf alla leið til Japans til að finna kurteisara og almennilegra fólk.

Allt þar til nýlega voru þessir elskulegu nágrannar okkar líka stoltir af kanadísku bönkunum og kanadísku stjórnarfari – en nú virðist það vera að breytast: Á næsta ári verður liðinn áratugur síðan Justin Trudeau komst til valda og hefur óánægja Kanadamanna með ríkisstjórn hans aldrei verið meiri. Þá hlaut kanadíski bankinn TD Bank á dögunum risasekt í Bandaríkjunum fyrir að hafa leyft umfangsmiklu peningaþvætti að viðgangast og hefur málið skilið eftir sig ljótan blett á orðspori kanadíska bankageirans.

Litlaus en áreiðanlegur

Sérstaða kanadísku bankanna sást á því hversu vel þeir stóðu af sér alþjóðlegu fjármálakreppuna hér um árið. Enginn þeirra fór á hausinn, stjórnvöld þurftu ekki að bjarga þeim og efnahagslægðin sem gekk yfir Kanada var hvorki löng né djúp.

Sérfræðingar hafa bent á að sá munur sé á bankageira Kanada og Bandaríkjanna að í Kanada starfi fáir en nokkuð stórir bankar með fjölbreyttan rekstur og útibú dreifð um allt landið, undir vökulu auga stjórnvalda. Í Bandaríkjunum er aftur á móti að finna aragrúa af bönkum og eru margir þeirra mjög smáir, mjög sérhæfðir, með litla dreifingu á landsvísu og þurfa ekki að lúta sama stranga reglu- og eftirlitskerfi og kanadísku bankarnir.

Af stóru kanadísku bönkunum fimm hefur TD Bank þótt fremstur meðal jafningja. Rekja má sögu bankans allt aftur til ársins 1855 og allt frá upphafi hefur hann þótt svolítið litlaus en mjög vel rekinn og áreiðanlegur. Þar hafa menn, á kanadíska vísu, gætt þess að missa ekki jarðtenginguna heldur einfaldlega lagt sig fram við að reka góðan banka og skila fínum hagnaði, en sterkt orðspor TD bank mátti m.a. sjá á því að hlutabréfaverð bankans, m.v. rekstrarframmistöðu, var alltaf örlítið hærra en hjá hinum kanadísku bönkunum.

Góður banki missteig sig

Liðin eru tuttugu ár síðan TD Bank hóf sókn inn á Bandaríkjamarkað og er bankinn núna í hópi þeirra 15 stærstu þar í landi (en bara lítið kríli í samanburði við bandarísku risabankana fjóra). Jafnt og þétt hefur TD Bank breitt úr sér um austurströnd Bandaríkjanna og allt lék í lyndi þar til kom að kaupum á First Horizon sem hefði leyft TD Bank að teygja sig langt inn í Suðurríkin, alla leið vestur til Texas. Í febrúar 2022 var sagt frá því að samruni væri að bresta á en svo rann yfirtakan út í sandinn og kom upp úr dúrnum að málið hafði strandað á grunsendum um að peningaþvætti væri orðið að vandamáli hjá TD Bank. Skömmu síðar upplýsti TD Bank að bankinn væri til rannsóknar og á síðasta fjórðungi lagði bankinn til hliðar 2,6 milljarða dala til að eiga fyrir yfirvofandi skuld. Var það í fyrsta skiptið í 21 ár sem TD Bank hefur skilað neikvæðum fjórðungi.

Umfang peningaþvættisins kom hins vegar ekki í ljós fyrr en í október, þegar TD Bank var gert að greiða bandarískum stjórnvöldum nærri þriggja milljarða dala sekt – hæstu sekt sem greidd hefur verið fyrir brot af þessu tagi. Þótti sannað að óvandaðir aðilar höfðu þvættað a.m.k. 670 milljónir dala hjá bankanum og höfðu 18.000 milljarðar dala fengið að streyma í gegnum bankann án þess að peningaþvættisvörnum væri sinnt. Í sumum tilvikum hafði starfsfólki útibúa bankans einfaldlega verið mútað til að taka við illa fengnu fé en rót vandans var að eftirliti var hreinlega ekki sinnt með fullnægjandi hætti.

Eftirlitsleysið hefur verið rakið til hagræðingaraðgerða og breyttrar menningar innan bankans. Þeir sem til þekkja segja að eftir að Bharat Masrani settist í bankastjórastólinn árið 2014 hafi daglegur rekstur TD Bank smám saman orðið þungur í vöfum, boðleiðir teppst og erfitt að koma hugmyndum og ábendingum í gegnum þéttriðið skrifræðið. Smám saman gáfust bestu stjórnendurnir upp og hurfu á braut og þeir sem eftir sátu misstu metnaðinn og agann.

TD Bank mun lifa risasektina af og þó svo að bankinn þyki ekki jafn gegnheill og áður þá eru stoðirnar nógu sterkar til að reksturinn geti gengið ágætlega um fyrirsjáanlega framtíð. Starfsemi bankans í Bandaríkjunum verður samt í járnum á komandi árum því TD Bank verður undir smásjá eftirlitsaðila. Þá hefur verið sett þak á hve stórt eignasafn bankans í Bandaríkjunum má vera, sem þýðir að nokkur ár munu þurfa að líða áður en TD Bank getur haldið áfram að vaxa.

Stöðnun og dýrtíð

Rétt eins og Masrani hjá TD Bank tók Justin Trudeau við ágætu búi en síðustu tíu ár hafa vandamálin hrannast upp í Kanada. Trudeau hefur leitt Frjálslynda flokkinn, og kanadískt samfélag, inn á braut pólitískrar réttsýni og vælumenningar (e. woke), en í kórónuveirufaraldrinum fór hann á taugum og lét stjórnlyndið hlaupa með sig í gönur. Kanadíska hagkerfið hefur ekki lagst á hliðina í stjórnartíð Trudeaus, en líkt og hjá TD Bank er eins og það sé einkum skriðþunginn sem haldi atvinnulífinu gangandi þrátt fyrir misgáfuleg stefnumál Trudeaus og samflokksmanna hans.

Ein birtingarmynd vandans er að Kanada hefur dregist lengra aftur úr Bandaríkjunum. Fyrir fjórum áratugum var landsframleiðsla á mann um 10% minni í Kanada en í Bandaríkjunum en núna nálgast munurinn 40% og hefur bilið milli landanna breikkað hraðar eftir að Trudeau komst til valda. Kanadísk stjórnvöld þykja flækjast of mikið fyrir atvinnulífinu og ekki gera nóg til að örva fjárfestingu í aukinni verðmætasköpun og er útkoman sú að landsframleiðsla á mann er ögn lægri í dag en hún var fyrir áratug.

Þá hefur mikil fasteignabóla blásið út í Kanada og er ríkisstjórn Trudeaus kennt um. Venjulegt launafólk hefur varla efni á að leigja íbúð og hvað þá kaupa sér fasteign og hefur húsnæðiskostnaðurinn étið upp kaupmátt þeirra sem búa í stórborgunum. Heimilisleysi er orðið útbreitt vandamál og áætlað að tíundi hver íbúi í Toronto þurfi á matargjöfum að halda til að komast í gegnum mánuðinn.

Sumir fullyrða að ástandið á fasteignamarkaðinum skýrist af tveimur þáttum: að stjórnvöld flæki það of mikið að byggja nýtt húsnæði, og að innflytjendastefna Trudaus hafi ýtt upp eftirspurnarhliðinni. Kanada þarf vissulega á innflytjendum að halda, og hefur náð að laða til sín ungt og vel menntað fólk í milljónavís, en innstreymið hefur verið meira en húsnæðismarkaðurinn hefur ráðið við.

Óánægja almennings sást vel í kosningunum 2021 þegar Frjálslyndi flokkurinn hlaut 32,6% atkvæða en Íhaldsflokkurinn 33,7%. Þar sem Kanada er með einmenningskjördæmakerfi fékk flokkur Trudeaus næstum helming þingsæta, en aldrei áður hefur kanadískur stjórnmálaflokkur myndað stjórn með lægra hlutfall atkvæða á bak við sig.

And-Trudeau er mættur

Núna blása ferskir vindar um kanadíska þingið því snemma árs 2022 sigraði Pierre Poilievre í prófkjöri Íhaldsflokksins með miklum yfirburðum. Poilievre er ekta hægrimaður og vill ólmur vinda ofan af flestum stefnumálum Trudeaus. Hann þykir ákaflega mælskur og má finna margar skemmtilegar þingræður á YouTube þar sem Poilievre tætir Frjálslynda flokkinn í sig – og ekki skortir hann efniviðinn.

Greinilegt er að kanadíska vinstrið er orðið órólegt og þeim hefur gengið illa að finna höggstað á Poilievre. Það gerir Poilievre að enn erfiðara skotmarki að hann hakar við öll réttu boxin í kanadískri merkimiðapólitík (e. identity politics): móðir Poilievre var einstæð og bara 16 ára gömul þegar hún gaf hann frá sér; stjúpfaðir hans kom síðar út úr skápnum og eiginkona Poilievre er dóttir innflytjenda frá Venesúela sem fluttu löglega til Kanada og tókst með eljusemi og dugnaði að koma ár sinni vel fyrir borð.

Raunar er margt líkt með Poilievre og JD Vance, tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna, bæði hvað uppvaxtarár og fjölskyldulíf þeirra varðar, en líka vegna þess að báðir kunna þeir að tjá sig á skýran og sannfærandi hátt og fara leikandi létt með að tæta í sig stefnumál vinstrimanna.

Poilievre vill m.a. hægja á streymi innflytjenda, gera leyfisferlið vegna byggingaframkvæmda í Kanada það einfaldasta og stysta af öllum OECD-ríkjum, veita atvinnulífinu bráðnauðsynlega vítamínsprautu með því að afnema kolefnisgjöld á eldsneyti og gera það að reglu að ekki megi auka ríkisútgjöld á einum stað nema skorið sé niður um samsvarandi upphæð annars staðar.

Gangi þetta eftir lofar Poilievre að Kanada verði á ný land tækifæranna.

Reikna má með að næstu þingkosningar í Kanada fari fram í október á næsta ári og mælist Íhaldsflokkurinn núna með í kringum 40% fylgi í könnunum. Er fylgisaukningin öll á kostnað Frjálslynda flokksins sem rokkar í kringum 25%.

Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum síðastliðinn miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK