Feðgarnir Skarphéðinn Berg Steinarsson og Steinar Atli Skarphéðinsson hafa stofnað ráðgjafarfyrirtækið Múlanes. Fyrirtækið mun sjá um sérhæfða rekstrarráðgjöf fyrir ferðaþjónustu.
Á heimasíðu félagsins segir að eftir mikinn vöxt fyrirtækja í ferðaþjónustu undanfarin ár sé nú nauðsynlegt að bæta innri rekstur og auka þar með arðsemi.
Skarphéðinn lét af störfum sem ferðamálastjóri fyrir tveimur árum og hefur áratugareynslu úr fyrirtækjarekstri og opinberri stjórnsýslu. Steinar hefur breiðan bakgrunn í ferðaþjónustu, smásölurekstri og hugbúnaðarþróun. Undanfarin ár hefur hann stýrt hugbúnaðarþróun Origo á sviði ferðalausna og þá sérstaklega þróun bókunarkerfa og sjálfvirknivæðingar.
Skarphéðinn segir í samtali við Morgunblaðið að þeir feðgar hafi unnið saman í ýmsum verkefnum en ákveðið að formgera nú samstarfið og vinna saman með markvissari hætti.
„Við spönnum nokkuð breitt svið og getum tekið að okkur býsna mörg verkefni. Það er víða þörf á því í ferðaþjónustunni að reyna að bæta afkomuna og framlegðina og innleiða fleiri tæknilausnir til að gera geirann og fyrirtækin öflugri,“ segir Skarphéðinn. „Við bætum hvor annan upp.“
Skarphéðinn segist hafa unnið í ferðaþjónustu síðan árið 2010 og komið víða við. „Það eina sem ég hef ekki gert er að reka bílaleigu.“
Hann segist oft hafa unnið í fyrirtækjum sem eru í vanda stödd og tekið þátt í að greiða úr málum. „Það á ágætlega við mig. Það er þó nokkuð af slíku í ferðaþjónustunni. Það er alltof mikið af litlum veikburða fyrirtækjum í greininni og víða eru tækifæri fyrir frumkvöðla til að hverfa frá borði og koma fyrirtækjunum inn í stærri einingar.“
Skarphéðinn segir að ferðageirinn sé, eins og aðrar atvinnugreinar, drifinn áfram af frumkvöðlum. „Við sjáum það um allt land. En svo gerist það að frumkvöðulinn vantar meira fé og þá gæti hentað að einhver annar taki við.“
Skarphéðinn segir að erlendir aðilar hafi talsvert leitað til þeirra feðga eftir ráðum upp á síðkastið. „Menn eru að spyrjast fyrir um innlenda markaðinn. Þeir vilja skilja hann betur, samsetningu hans, hverjir eru þátttakendur, hver fyrirtækin eru og hvernig þau tengjast. Það ýtti við okkur að stofna félagið. Við búum yfir þekkingu sem hentar í slík verkefni.“
Um tæknimálin segir Skarphéðinn að þar leynist mýmörg tækifæri. Fyrirtæki hafi möguleika á að lækka hjá sé kostnað og auka þjónustu, t.d. með fjártækni. „Það eru mikil tækifæri í að tryggja að greiðsla berist örugglega og auka möguleika fyrir fyrirtækin að gera upp fyrr. Þá nýtist tæknin í að meta áhættu af viðskiptum við einstaka viðskiptamenn.“
Skarphéðinn sér fyrir sér að fyrirtæki geti í auknum mæli látið viðskiptavini klára greiðslur í gegnum netið áður en þeir koma til landsins. Slíkt tíðkist í fluginu og ætti að ganga víðar. „Ferðamanni þætti gott að sleppa við innritun þegar á gististaðinn er komið t.d. Um leið er verið að hagræða í rekstri og auka þjónustu.“
Hann segir tæknina einnig nýtast í aðgangs- og álagsstýringar á ferðamannastöðum. „Þetta verður allt leyst með tæknilausnum. Það verða engir þarna úti með kvittanablokkir á ferðinni í framtíðinni.“